Skipulagsstofnun: tvær framkvæmdir ekki í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur ákveðið að tvær framkvæmdir á Vestfjörðum skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Önnur þeirra er fyrirhuguð smábátahöfn við Brjánslæk. Um er að ræða áform um byggingu grjótgarðs við Brjánslæk og efnistöku sem svarar til 28.000 m³ af grjóti og kjarnaefni. Það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Færsla á hluta Bolungavíkurlínu 1

Hin framkvæmdin er fyrirhuguð færsla á hluta af Bolungavíkurlínu 1. Fyrirhuguð framkvæmd felur í sér endurbyggingu á 66 kV loftlínu, Bolungarvíkurlínu 1 á 2.250 m kafla um Svarthamrahvilft. Línan kemur til með að liggja vestur undir hamrabelti yfir á smáhæð í landinu í sunnanverðri Svarthamrahvilft þaðan sem línan verður lögð í einu löngu hafi (585 m) upp á brún ofan við hvilftina. Þessi leið styttir verulega þann kafla línunnar sem liggur í mikilli hæð, auk þess sem mastrastæðum mun fækka úr 24 í 12 á þessum kafla. Þar hefur mest áhrif langt haf úr Svarthamrahvilft upp á brún og lengri haflengdir úr núverandi línu yfir í hornmastur í hvilftinni.
Mesta hliðrun frá núverandi línustæði er um 400 m og fer jafnt minnkandi til beggja átta. Endurbyggja þarf stæður þar sem farið er út úr línunni og komið aftur inn í hana og setja hornmöstur. Áætlar framkvæmdaraðili að heildarrask verði á bilinu 240-480 m².

Umfang framkvæmdarinnar er lítið segir í niðurstöðu Skipulagsstofnunar, en viðbúið að nokkuð rask verði vegna tilfærslu línunnar inn á að mestu óraskað svæði, auk þess sem tilfærsla línunnar niður í Svarthamrahvilft mun hafa áhrif á ásýnd svæðisins frá takmörkuðu sjónarhorni úr Botnsdal. Nýjar staurastæður munu standa í grennd við núverandi slóða og því mögulegt að takmarka rask af uppsetningu þeirra. Skipulagsstofnun telur ef staðið verður að framkvæmdum á þann hátt sem Landsnet fyrirhugar sem og að vandað verði til frágangs verða neikvæð áhrif tímabundin vegna rasks á framkvæmdatíma við tilfærsluna og niðurrif loftlínunnar ekki veruleg.

DEILA