Raforkubrestur á Vestfjörðum

Úlfar Thoroddsen.

Sett á blað eftir að hafa horft á 19:00 fréttir í  Ruv sjónvarpi allra landsmanna sunnudaginn 30. janúar 2022 þar sem fjallað var um  örðuga stöðu Orkubús Vestfjarða í þeim raforkuskorti sem landsmenn búa við þessa stundina og alls ekki er séð fyrir endann á.

Mál málanna fyrir Vestfirðinga er raforku- og samgönguöryggi.

Gagngerðar umbætur í raforkumálum hér vestra gerast varla á næstunni að öllu óbreyttu. Þess vegna þarf að knýja fast á stjórnvöld að liðka fyrir og opna á virkjunarframkvæmdir án tafar. Ýmis undirbúningur þarf að fara fram áður en að framkvæmdum verður. Sá undirbúningur tekur tíma og telst í  nokkrum árum. Vísast þarf að yfirstíga ýmsar hindranir svo sem vernd náttúru, eignarhald lands og sátt ólíkra sjónarmiða um það hvort áherslu skuli leggja á einn virkjunarkost umfram aðra. Sitt mun sýnast hverjum hvort ráðast skuli í Vatnsfjarðarvirkjun, Skúfnavatnavirkjun, Hvalárvirkjun eða Austurgilsvirkjun.

Frá sjónarhóli greinarritara virðist Vatnsfjarðarvirkjun vera sá kostur sem er líklegastur ásamt umbótum á flutningskerfinu. Til stuðnings þeirri skoðun  vísast í  frétt dags. 29. desember 2021 á heimasíðu Orkubús Vestfjarða  um efni skýrslu verkfræðistofunnar EFLU „Áreiðanleiki afhendingar á Vestfjörðum“ sem unnin var fyrir Landsnet.  Kemur þar m.a. fram að tvöföldun flutningslínunnar, sem lengi hefur verið blínt á, virðist fráleitur kostur bæði flókinn og afar kostnaðarsamur og tímafrekur.  Orkubússtjóri og forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hafa fjallað um Vatnsfjarðarvirkjun sem álitlegasta kostinn í stöðunni. Síðast birti Ingimundur Andrésson fróðlega grein á BB um raforkumálin og mikilvægi sömu virkjunar. Hann er fyrrverandi starfsmaður Rafveitu Patrekshrepps og síðar Orkubús Vestfjarða og flestum hnútum kunnugur í raforkumálum Vestfirðinga. Hann hefði átt að vera í nefndinni sem Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir stýrir og fjallar um raforkumál Vestfirðinga. Nægar skýrslur liggja fyrir um raforkumál á Vestfjörðum og tæpast þörf á fleirum. Nú er hins vegar þörf á tafarlausum ákvörðunum um framkvæmdir.

Enginn sveitarstjórnarmaður á sunnanverðum Vestfjörðum hefur stungið niður penna til að viðra skoðun í þessu máli á opinberum vettvangi. Það er slæmt að vita ekki hug forystuafla heima fyrir í svo brýnu máli. Að vita ekki hvort einhugur ríki um Vatnsfjarðarvirkjun eða aðra lausn eða hvort klofin afstaða sé um þau áform.

 Greinarritari hefur sent fyrirspurn á forystu meiri- og minnihluta bæjarstjórnar Vesturbyggðar um það hvort einhugur sé um Vatnsfjarðarvirkjun eða skiftar skoðanir. Ekkert svar hefur borist. Það er lágmarkskrafa að bæjarstjórnin móti opinbera afstöðu eða stefnu í raforkumálunum og  birti almenningi og haldi henni fram við stjórnvöld.  

Það ætti flestum Vestfirðingum að vera ljóst að næg og örugg raforka er ein megin undirstaða framtíðarbúsetu á Vestfjörðum. Fyrir því á að berjast.

Patreksfirði 30. janúar 2022

Úlfar B Thoroddsen áður í  sveitarstjórn Patrekshrepps og Vesturbyggðar

DEILA