Patreksskóli: tveir nemendur fá eftirsóttan styrk til náms í Englandi

Grunnskólinn á Patreksskóli.

Tveir nemendur úr litlum skóla út á landi hafa fengið heimsþekktan og eftirsóttan skólastyrk – Chevening. Það eru þær Rut Einarsdóttir og Tanja Teresa Leifsdóttir frá Patreksfirði sem hafa styrk til þess að stunda nám við SOAS háskólann í London, sem er einn af top 5 háskólum Bretlands.

Chevening styrkurinn þykir eftirsóknarverður styrkur sem er úthlutað um allan heim til margra landa en einungis einn á Íslandi hlýtur styrkinn ár hvert. Styrkurinn hljóðar upp á 10.000 pund og er veittur til þeirra sem þykja gott leiðtogaefni á heimsvísu en þær stöllur hafa einmitt báðar tekið þátt í alheimsráðstefnu One Young World sem fulltrúar Íslands, Rut í Thailandi árið 2016 og Tanja í Þýskalandi árið 2019.

Breska sendiráðið og Samtök atvinnulífsins standa að styrknum sem er veittur fyrir nám á meistarastigi við háskóla í Bretlandi. Chevening styrkþegar eru hluti af alþjóðlegu tengslaneti og eru í dag um 50 þúsund talsins, þ.á.m. margir þjóðarleiðtogar eins og núverandi forseti Íslands og annað alþjóðlegt forystufólk. Meðal markmiða með veitingu styrkjanna er að styðja við leiðtoga framtíðarinnar sem geta mótað innlend jafnt sem alþjóðleg málefni með því að byggja á reynslu sinni og nánu sambandi við Bretland sem námsdvölin þar veitir.

Rut hefur farið með kynningar og erindi í Patreksskóla sem og á Flak og Húsið á Patreksfirði og oft tekið erlenda vini með sér sem hafa haldið kynningar á ýmsum heimsmálefnum. Þá hefur hún farið meðal annars með vin sinn frá Kóreu í skólann og þau kynnt þar landið hans, tungumál og menningu, Komið með vinkonu sína frá Eritreu og kynnt hennar frelsisbaráttu í sínu landi fyrir málfrelsi og lausn pólitískra fanga þar í landi. Síðast en ekki síst hefur hún leitt hugleiðslu í Patreksskóla með handleiðslu frá munki í Thailandi í gegnum fjarbúnað sem mæltist mjiög vel fyrir hjá nemendum. Hún vill með þessu endurgjalda til samfélagsins sen hún er alin upp í og vera ungu fólki í dag fyrirmynd.

Tanja hefur einnig verið dugleg að sinna jafnréttisbaráttu á Íslandi enda sat hún í stjórn Ungra Athafnakvenna og hélt utan um verkefni hjá Girls 4 Girls sem var stofnað af Harvard nemendum og hjálpar ungum stelpum að feta sig í opinbera geiranum. Þá var hún einnig starfsnemi hjá Íslenska Sendiráðinu í Frakklandi.

Rut Einarsdóttir.

Rut stundaði sitt grunnnám við APU í Japan áður en hún fór í SOAS í London þar sem Tanja hóf einnig nám í haust. Tanja stundar nú nám við Kynjafræði við SOAS með áherslu á mið-austurlönd og nám Rutar snýr að því hvernig átök og ofbeldi hafa áhrif á þróun landa.

Tanja Teresa Leifsdóttir.

Það verður spennandi að fylgjast með þeim stöllum og fylgja þeim heillaóskir inn í framtíðina.

DEILA