Elías Jónatansson, orkubússtjóri segir Orkubú Vestfjarða draga a.m.k. þá ályktun af skýrslunni sem Landsnet lét vinna í fyrra að Vatnsfjarðarvirkjun gefi í raun heldur meira öryggi en tvöföldun Vesturlínu.
Hann segir mikilvægt að hafa í huga að flutningsgeta Vesturlínu er engan veginn fullnýtt í dag. Með minniháttar aðgerðum er hægt að auka flutningsmagnið um hana verulega. Hæstu flutningstoppar á línunni eru um þessar mundir um 35MW, en sambærilegar línur í Byggðalínuhringnum flytja jafnvel yfir 100MW. Flutningsgeta sjálfrar línunnar er því langt frá því að vera komin að þolmörkum.
„Vegna veikleika Byggðalínuhringsins er aukning á flutningsgetu línunnar umfram núverandi toppa takmörkuð við 10 til 15MW skv. upplýsingum Landsnets. Um leið og Byggðalínuhringurinn hefur verið styrktur, en ekki fyrr, er mögulegt að auka orkuflutning verulega um Vesturlínu.“
Orkubú Vestfjarða leggur mikla áherslu á kosti Vatnsfjarðarvirkjunar fyrir aukna raforkuframleiðslu og bætt afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum og að fyrirhugaður þjóðgarður á Vestfjörðum loki ekki fyrir þennan virkjunarkost.
Lítil umhverfisáhrif
Í kynningarefni um Vatnsfjarðarvirkjun sem Orkubú Vestfjarða hefur útbúið segir um virkjunina:
„Það er kostur við Vatnsfjarðarvirkjun að hún skerðir engin víðerni. Þá væri hægt að tengjast
Tálknafjarðarlínu og þar með beint inná hringtengda Mjólkárveitu. 20 – 30 MW virkjun væri því ígildi N 1 tengingar í Mjólká.
Umhverfisáhrifin af Vatnsfjarðarvirkjun eru neðan 250 metra hæðar bundin við stöðvarhúsið. Áhrifin eru að lang mestu leyti afturkræf við lok framkvæmda með vönduðum og góðum frágangi. Engin áhrif eru á birkiskóg.
Ofan 250 metra hæðar eru umhverfisáhrifin lítil. Vatnsforðinn er að mestu leyti í náttúrulegum vötnum. Byggja þarf stíflur til hækkunar á vatnsborði , en landslagið er bratt sem þýðir að lítið hlutfall þess fer undir vatn eða 1,5 ferkm. Þar er um að ræða ógróið land uppi á hásléttunni. Þá skiptir máli að Mjólkárlína núverandi liggur um virkjunarsvæðið þannig að verið er að virkja svæði sem þegar er raskað.“