Óskað eftir stuðningi þingmanna við jarðgangaáætlun Vestfirðinga

Samök atvinnurekenda a sunnanverðum Vestfjörðum sendu í gær alþingismönnum Norðvesturkjördæmis opið bréf þar sem óskað er eftir afdráttarlausum stuðningi þeirra við íbúa, atvinnulíf og sveitarfélög á Vestfjörðum við að fá aukið fjármagn til að hefja undirbúning og í framhaldi gerð tvennra jarðganga á suðurhluta Vestfjarða og Álftafjarðarganga.

Í bréfinu segir að öll „yfirboð um annað munu leiða þessi mál í ógöngur og Vestfirðir sitja eftir einu sinni enn.“

Minnt er á að á síðasta Fjórðungsþingi Vestfirðinga s.l. haust hafi verið stigið stórt framfaraskref þegar samþykkt var sameiginlega ályktun um að forgangsmál í jarðgöngum væru tvenn göng innan sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum þ.e. um Mikladal frá Patreksfirði til Tálknafjarðar og þaðan um Hálfdán til Bíldudals, samhliða gerð Álftafjarðarganga til Súðavíkur.

„Við sem búum á Vestfjörðum höfum of lengi búið við gamla og ónýta vegi, sérstaklega á suðurhlutanum og hafa sveitarfélög, einstaklingar og atvinnufyrirtæki barist endalaust að betri samgöngum. Þrátt fyrir að vegabætur í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði séu nú loksins að hefjast eftir áratuga aðgerðarleysi er öllum ljóst að betur má ef duga skal. Ekki er vert að vanþakka það sem búið er að gera s.s. jarðgöng til Bolungarvíkur á sínum tíma og
Dýrafjarðargöng á síðasta ári svo og Djúpvegur á löngum tíma.
Þá skal áréttað að atvinnulífið á Vestfjörðum er að skapa verulegar tekjur fyrir ríkið og samfélagið allt og um leið að skapa verulegar útflutningstekjur. Má ætla að hvergi sé meira útflutningsverðmæti pr. íbúa annars staðar á landinu og eykst enn frekar á næstu árum.
Það verður þvi að teljast sanngjörn krafa að innviðauppbygging, eins og samgöngukerfi, sé í samræmi við þörf og í samræmi við það sem gerist annars staðar á landinu.“

DEILA