Orkumál, samgöngur og samkeppnishæfni Vestfjarða

Orkumál og samgöngumál. Þetta eru þeir málaflokkar sem ég hef líklega minnst á í flestum pistlum í fréttabréfum Vestfjarðastofu síðasta árið. Þessi mál eru grunnforsendur búsetu víðast hvar og skipta öllu máli þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Ég finn samt að þolið fyrir málflutningi okkar Vestfirðinga er ekkert alltof mikið þegar kemur að umræðunni um innviði og grunngerð. Því verður ekki á móti mælt að miklar vegaframkvæmdir eru á svæðinu þessi árin og er það vel. Það virðist hins vegar gleymast í þeirri umræðu að þarna er verið að gera endurbætur á 70 ára gömlum stofnvegum sem ekki hafa fengið viðeigandi viðhald eða neinar framkvæmdir. Það er verið að vinna upp langvarandi framkvæmdaleysi á svæði sem hefur verið vanrækt illilega svo áratugum skiptir.

Í mannfjöldaspám Byggðastofnunar eru það tvö svæði á landinu sem spáð er nánast hruni ef horft er til  2035. Það er Norðurland Vestra og Vestfirðir – þar sem fækka mun allra mest samkvæmt þessum spám. Spárnar byggja á fortíð, á aldurssamsetningu íbúa og fleiri þáttum. Byggðaáætlun sem er hið ágætasta plagg tekur afar lítið tillit til þessarar spár.  Aðgerðum í byggðamálum er beint um allt land – helst sem jafnast til að allir séu hæfilega óánægðir.  

Landsnet verður lögum samkvæmt að byggja sínar áætlanir á ónothæfri raforkuspá sem er í engu samræmi við vöxt undanfarinna ára í raforkunotkun á Vestfjörðum, engin tengsl eru sjáanleg við fyrirhugaða öfluga atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og ekkert samræmi er við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um orkuskipti t.d. fyrir ökutæki, skip, báta og ferjur o.s.frv. Hægfara framkvæmdaáætlun Landsnets stendur í vegi fyrir þeirri þróttmiklu atvinnuuppbyggingu sem nú er á fullri ferð á svæðinu.

Orkumál Vestfirðinga hafa verið til umfjöllunar svo áratugum skiptir. Hér er ekki um að ræða nýtt vandamál sem er að koma upp í dag. Stjórn Vestfjarðastofu ályktaði um orkumálin í síðustu viku og benti á fjölda skýrslna um greiningu á stöðu og tillögur til úrbóta í málaflokknum auk þess sem orkustefna iðnaðarráðherra frá síðasta ári og þingsályktun frá 2018 um flutningkerfi raforku eiga að setja Vestfirði í forgang.  Stjórnvöld hafa því nægar forsendur til að taka nauðsynlegar ákvarðanir bæði varðandi styrkingu flutningskerfis raforku innan Vestfjarða og bættra tenginga við aðra landshluta sem og ákvarðanir varðandi undirbúning vatnsafls- og vindorkuvirkjana innan Vestfjarða.

Kjarni málsins er í raun sá að rammi raforkulaga er markaðsvæðing sölu og flutnings á raforku. Á Vestfjörðum er í raun markaðsbrestur þannig að kostnaðarsöm lagfæring á flutningskerfi raforku setur svæðið alltaf síðast í „röðina“.

Vestfjarðastofa hélt opinn fund um jarðgöng á Vestfjörðum í síðustu viku þar sem farið var yfir jarðgangnaáætlun Vestfjarða og kynnt samfélagsgreining vegna jarðgangna. Þar kom fram að brýnustu framkvæmdir á því sviði kostuðu um 47 milljarða. Mögulegur kostnaður við uppbyggingu samkeppnishæfs flutningskerfis raforku innan Vestfjarða og tengingar við aðra landshluta gætu kostað 12-15 milljarða. Heildarkostnaður við „Samkeppnishæfa Vestfirði“ er því ríflega 60 milljarðar. Líklegt er að í landshlutanum verði útflutningsverðmæti afurða á næstu árum nálægt þeirri tölu árlega. Því væri tilvalið að 10% af útflutningsverðmætum væru sett í uppbyggingu innviða næstu 10 árin til að svæðið verði í svipaðri stöðu og aðrir landshlutar og koma í veg fyrir fullkomið hrun sem birtist í mannfjöldaspám.

Gætum við náð samfélagslegri sátt um það?

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA