Menningarfulltrúi Ísafjarðar?

Frá þrettándagleðinni á Ísafirði. Mynd: Ísafjarðarbær.

Á fundi menningarmálanefndar Ísafjarðarbæjar var lagt fram minnisblað Bryndísar Óskar Jónsdóttur, sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, dags. 7. febrúar 2022, vegna menningarfulltrúa Ísafjarðarbæjar.

Í minnisblaðinu er reifuð sú hugmynd að endurskoða starfsmannaþörf á sviði menningar og viðburða.

Færð eru fram þau rök að upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar hafi haft það verkefni að annast skipulagningu og framkvæmd hátíðahalda í sveitarfélaginu, en nú hafi starfssvið upplýsingafulltrúa breikkað mjög, með tilkomu meiri upplýsinga og fréttaskrifa á heimasíðu, nýrra lausna á vefsíðu og í skjalavörslukerfi/þjónustugátt, samfélagsmiðla og
annarra stafrænna kerfa hjá sveitarfélaginu.

„Á sama tíma hefur stefna sveitarfélagsins verið sú að auk veg ýmissa hátíða, menningarliða og viðburða, bæði sem haldnir eru á vegum einkaaðila, íþróttafélaga og opinberra aðila, s.s. með fjölgun styrkja til einstakra verkefna og aukins fjárs til úthlutunar menningarverkefna hjá menningarmálanefnd. Jafnframt er þörf á að tengja saman mismunandi hópa, starfsmenn og stofnanir/menningarhús til að ná sem mestum árangri á þessu sviði.“ segir í minnisblaðinu.

Leggur sviðsstjórinn til að menningarmálanefnd ræði lausnir og hugmyndir vegna þessa málefnis .

Í bókun sinni segir nefndin að „Menningarmálanefnd telur mikilvægt að huga að starfi menningarmálafulltrúa Ísafjarðarbæjar og leggur áherslu á að frekari vinnsla málsins fari fram meðfram gerð Menningarmálastefnu Ísafjarðarbæjar.“

DEILA