Landsvirkjun: stóriðjan skilaði tugum milljarða króna í hagnað í fyrra

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði var 29,5 milljarðar króna og hækkaði um 64% á milli ára í Bandaríkjadal talið. Rekstrartekjur Landsvirkjunar jukust um rúm 23% frá fyrra ári og voru meiri en áður í sögu félagsins. Stjórn Landsvirkjunar leggur til að fyrirtækið greiði 15 milljarða króna í arð til ríkisins.

Bætta afkomu má rekja til mikils bata í rekstrarumhverfi stórnotenda viðskiptavina okkar og Landsvirkjunar sjálfrar.

„Selt heildarmagn jókst um 5% á milli ára. Meðalverð inn á heildsölumarkað til heimila og smærri fyrirtækja hækkaði ekki frá fyrra ári, var 5,3 kr/kWst, á meðan meðalverð til stórnotenda hækkaði um 55% og var 32,7 USD/MWst. Hækkunina má einkum rekja til hagstæðra ytri skilyrða á ál og orkumörkuðum og  þess að endursamið hefur verið við flest fyrirtækin og greiða þau sambærileg verð og þau greiða í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Bætta afkomu Landvirkjunar á síðasta ári má því alfarið rekja til hækkunar á tekjum af sölu til stórnotenda.“ segir í fréttatilkynningu Landsvirkjunar.

Nettó skuldir lækkuðu um tæpa 23 milljarða króna (175 milljónir Bandaríkjadala) frá upphafi árs. Helstu skuldahlutföll eru nú orðin sambærileg og þau eru hjá systurfyrirtækjum Landsvirkjunar á Norðurlöndunum.

Arðgreiðslur Landsvirkjunar hafa aukist mjög á sl. árum. Árið 2019 nam arðurinn 4,25 milljörðum kr., árið 2020 var hann 10 milljarðar kr., á síðasta ári var hann um 6,3 milljarðar í takt við lækkandi tekjur á covid-tímum og í ár stefnir í 15 milljarða kr.

Skuldlaust eigið fé Landsvirkjunar er um 300 milljarðar króna. Bókfært stofnverð virkjana er um 700 milljarðar króna.

DEILA