Jarðgangamál á Vestfjörðum

Okkur þingmönnum Framsóknar í Norðvesturkjördæmi er bæði ljúft og skylt að bregðast við opnu bréfi til Alþingismanna í kjördæminu frá Samtökum atvinnurekanda á sunnanverðum Vestfjörðum. Bréfið er ákall eftir stuðningi okkar við að fá aukið fjármagn til að hefja undirbúning jarðganga á svæðinu.

Grundvallarþörf þess samfélags sem við erum búin að hanna eru greiðar samgöngur. Kröfur um enn meiri samvinnu í samfélögum krefjast greiðari og öruggari samgangna. Miklar samgöngubætur hafa orðið á Vestfjörðum, sérstaklega á norðanverðu svæðinu og ásamt mikilli aukningu á vetrarþjónustu síðastliðna áratugi. En úrbóta er enn þörf ef litið er með tilliti til byggðaþróunar og daglegrar vinnusóknar. Þá horfum við til aukinna umsvifa fiskeldis sem skila þjóðarbúinu tugi milljarða í útflutningstekjur, við gerum kröfur um að samgöngur á svæðinu séu skilvirkar, öruggar og heilsárs. Um þetta erum við öll sammála.

Samtakamáttur samfélaga

Í lok janúar sátu þingmenn kjördæmisins fund sveitarfélaga á Vestfjörðum, þar var okkur var kynnt jarðgangaáætlun Vestfjarða til ársins 2050 sem Fjórðungssamband Vestfjarða hefur gefið út. Um er að ræða sameiginlegar áherslur sveitarfélaga í fjórðungnum. Á fundinum var einnig kynnt skýrsla sem Hreinn Haraldsson hefur tekið saman fyrir Fjórðungssambandið um bættar samgöngubætur næstu áratuga. Í skýrslunni má finna í hnotskurn hver staðan í fjórðungnum og hvert þurfi að stefna miðað við atvinnulíf á Vestfjörðum og þörf samfélaga til þess að hægt sé að tala um framþróun. Ásamt því hvers þarf svo að íbúar á Vestfjörðum lifi við jafnrétti á við aðra landsfjórðunga hvað varðar búsetu og þjónustu.

Hreinn þekkir vel til vegamála og framkvæmda síðast liðna áratuga. Í inngangi skýrslunnar kemur fram að hlutur Vestfjarða hafi verið rýr og að landshlutinn reki lestina þegar litið er til landsins alls þegar kemur að framkvæmdum í vegamálum. Sérstaklega þegar kemur að heilsárs tenginga milli byggða þar sem á mörgum stöðum eru enn malarvegir fortíðarinnar.  Sá landshluti sem býr við þennan veruleika getur aldrei verið að fullu samkeppnisfær um íbúa, atvinnutækifæri og vöxt við önnur svæði landsins.

Sveitarfélög á Vestfjörðum eru sammála um að brýnustu verkefnin í jarðgangagerð séu jarðgöng um Mikladal og Hálfdán á sunnanverðum og Súðavíkurgöng á norðanverðu svæðinu. Undir þetta er auðvelt að taka, sérstaklega nú á þorra þegar veður og færð draga skýrt fram þessar kröfur. 

Hver er afstaða okkar?

Afstaða okkar þriggja er skýr, það er alltaf ástæða að berjast fyrir bættum samgöngum á svæðinu, það á við um Vestfirði og kjördæmið allt. Við þurfum að horfa til framtíðar, fleiri jarðgöng eru og eiga að vera möguleg. Við vitum að jarðgöng eru gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið á Vestfjörðum og þörf er á að um þau sé kveðið í samgönguáætlunum næstu ára. Sjálfsögð krafa sem við tökum undir og berjumst fyrir, alla daga.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

DEILA