Ísafjörður: Flygladúóið Sóley með tónleika

Flygladúóið Sóley, skipað píanóleikurunum Laufeyju Sigrúnu Haraldsdóttur og Sólborgu Valdimarsdóttur, heldur tónleika laugardagskvöldið 12. febrúar kl. 19:30 í Hömrum á Ísafirði.

Á efnisskránni verða fjölbreytt verk fyrir tvo flygla allt frá barokktímanum til samtímans, en tvö íslensk tónskáld, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Lilja María Ásmundsdóttir, sömdu verk fyrir dúóið sérstaklega fyrir flygladúóið.

Miðaverð á tónleikana er 2.000kr., 1.500 kr.  fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja en frítt er fyrir nemendur og börn yngri en 18 ára 

Miðasala fer fram við innganginn. 

Flygladúóið Sóley  var stofnað árið 2019 af píanóleikurunum Laufeyju Sigrúnu Haraldsdóttur og Sólborgu Valdimarsdóttur í þeim tilgangi að flytja gamla sem nýja tónlist og veita með því innsýn inn í hinn margbrotna heim flyglanna. Dúóið frumflutti meðal annars íslensk verk á síðasta ári, sem samin voru sérstaklega fyrir dúóið.

DEILA