Ísafjarðarbær: Lilja Rafney útilokar ekki framboð

Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrrv. alþingismaður útilokar ekki framboð fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Þetta kom fram í viðtali við hana á útvarpsstöðinni Sagan fyrr í vikunni þar sem hún var gestur í þætti Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.

Lilja sagði í þættinum að margir hafi komið að máli við hana og hvatt hana til þess að bjóða sig fram í sveitastjórnakosningunum, hún hafi ekki enn gert upp hug sinn en útiloki ekki framboð, stóra málið í hennar huga sé fyrst og fremst að gott fólk verði í því hlutverki að stjórna bænum.

Lilja hefur áður komið að sveitastjórnarpólitík en hún sat í hreppsnefnd Suðureyrar fyrir sameininguna í Ísafjarðarbæ og því hefur hún nokkra reynslu að baki í sveitarstjórnapólitík, til dæmis að sameiningu sveitarfélagana á svæðinu.

„ég þekki þetta alveg ágætlega og minnist ferða á vélsleða á milli fjarða til þess að funda um málin og við sem störfuðum í þessum málum gerðum það af heilindum, mér finnst reyndar að menn megi vanda sig svolítið betur í því að halda utan um þessi þorp því að þar er mjög margt jákvætt að gerast og menn mega ekki gleyma að rækta garðinn sinn þar“segir Lilja.

Bæjarins besta hafði samband við Lilju Rafney og innti hana eftir því hvort framboð hennar yrði fyrir Í listann og hvort hún myndi stefna á oddvitasæti litans. Hún svaraði því til að ekkert væri ákveðið í þeim efnum.

DEILA