Ísafjarðarbær: bæjarráð styður byggingu 40 íbúða nemendagarða fyrir Háskólasetur Vestfjarða

Væntanleg lóð nemendagarðanna er við Fjarðarstræti 20.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að veitt verði úr bæjarsjóði 74 milljón króna stofnframlag til byggingar á 40 íbúða nemendagörðum fyrir Háskólasetur Vestfjarða. Er það 12% af byggingarkostnaði. Það verði stofnað húsnæðissjálfseignarstofnun sem standi að framkvæmdunum og fái styrk frá ríkinu fyrir 18% af byggingarkostnaði. Heildarstofnverð nemendagarðanna er 616 milljón króna. Heildarfermetrafjöldinn er 1.220. Áformað er að framkvæmdir hefjist í haust og verði lokið annað haust.

Fram hefur komið að gert er ráð fyrir að nemendagarðarnir rísi á lóðinni að Fjarðarstæti 20.

Rífa þarf skúrana við Fjarðarstræti 20 og fjarlægja plötu og sökkla til að afhenda lóðina. Kostnaður við það er áætlaður 30 m.kr. samkvæmt upplýsingum frá Tækniþjónustu Vestfjarða. Gatnagerðagjöld, Byggingaleyfisgjöld og mæla og tengigjöld eru áætluð 14,9 m.kr.

Þessi kostnaður tæpar 45 m.kr. er greiddur með framlagi bæjarins og eftirstöðvarnar af framlaginu 29 m.kr. greiðast við verklok.

Málið gengur nú til bæjarstjórnar sem tekur endanlega afstöðu.

DEILA