Hagnaður Arctic Fish 2,3 milljarðar kr.

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish ehf. á Vestfjörðum kynnti uppgjör fyrir árið 2021 og fjórða ársfjórðung þess árs í dag. Hagnaður fyrirtækisins árið 2021 var 2,3 milljarðar króna og framlegð í fjórðunginum fyrir greiðslu vaxta og skatta nam 150 krónum á hvert selt kíló (Operational EBIT pr. kg). Afkoma fyrir greiðslu vaxta og skatta (Operational EBIT) í ársfjórðungnum nam 407 milljónum króna sem er 592 milljónum krónum meira en á sama tímabili síðasta árs.

Arctic Fish uppskar áframhaldandi velgengni á fjórða ársfjórðungi 2021. Fyrirtækið slátraði og seldi 2.900 tonn af slægðum laxi í fjórðunginum og 11.500 tonnum á árinu öllu. Það er 54% meira en á árinu áður og það mesta sem félagið hefur slátrað á heilu ári.

Hátt verð á laxi var einn helsti drifkraftur jákvæðrar afkomu í fjórðungnum. Meðalsöluverð á kíló var 838 krónur, samanborið við  565 krónur á fjórða ársfjórðungi 2020. Félagið selur fiskinn við verksmiðjudyr á Bíldudal og útvistar sölustarfsemi félagins. Með aukinni framleiðslu hefur einnig tekist að lækka framleiðslukostnað og hefur það jákvæð áhrif á rekstur félagsins. Rekstrartekjur ársins 2021 voru 8,8 milljarðar króna og í fjórða ársfjórðungi 2,5 milljarðar króna.

Fyrirtækið horfir fram á að fyrsti ársfjórðungur 2022 verði erfiður vegna þeirra framleiðsluvandamála sem hafa verið í Dýrafirði.  Það hafa tapast um 3 þúsund tonn af laxi sem áætlað er að muni hafa neikvæð áhrif á uppgjör sem nemur um 1,5 milljarði króna.

DEILA