Álftafjarðargöng í forgang !

Það verður að endurskoða samgönguáætlun sem fyrst með það að leiðarljósi að koma Álftafjarðargöngum inn á framkvæmdaráætlun og flokka þau sem flýtiframkvæmd í ljósi öruggis vegfaranda ! Í liðinni viku lagði ég fram ítarlega fyrirspurn til Innviðaráðherra sem lýtur að ákalli heimamanna og allra vegfaranda um jarðgöng í stað stórhættulegrar Súðavíkurhlíðar. Frá því að ég keyrði hlíðina fyrir um 2 vikum hefur þurft að loka henni oftar en einu sinni vegna snjóflóðahættu og snjóflóða. Viðtöl við Súðvíkinga sýna hversu mikið álaga og lífshættu vegfarendum er búinn á ferð sinni til Ísafjarðar daglega til að sækja þar skóla,atvinnu ,heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu hverju sinni. Þetta er óviðunandi ástand og óásættanlegt annað en það að stjórnvöld komi strax að málum og hefji vinnu við undirbúning strax.

Forsagan liggur fyrir og þarf ekki að horfa langt aftur í tímann til að rifja hana upp en þann 16. janúar síðastliðinn  var vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaður vegna snjóflóða. Samkvæmt skráningu Vegagerðarinnar féllu ein 6 flóð á hlíðina sem hafa farið yfir og teppt veginn en alls féllu um 17-20 flóð sem náðu annað hvort yfir, inná veg eða fylltu vegrásina að ofanverðu. Til samanburðar féllu 61 flóð á Súðavíkurhlíð veturinn 2018 og eru aðeins talin flóð sem falla yfir veg og teppa umferð. Hafa ber í huga að grjóthrun á hlíðinni er ekki haldið inni tölfræðisamantekt og því einungis skráð verulegt tjón á bílum. Þá er ómældur kostnaður og tjón þar sem annað hvort er ekki hægt að koma vörum að eða frá Súðavík, dagar þar sem starfsfólk kemst ekki leiðar sinnar til vinnu, getur ekki sótt þjónustu og tjón á bifreiðum. Þá skal ekki vanmeta afleiðingar þessa á búsetu fólks og andlega líðan vegna yfirvofandi hættu á snjóflóðum eða grjóthruni stóran hluta ársins. Mikilvægt er að hafa í huga að vegurinn liggur í þjóðbraut og tengir Norðanverða Vestfirði við aðra landshluta og alla þá nauðsynlegu þjónustu. Þá er vert að minnast á að uppbygging öruggra samganga á svæðinu eru ekki síst mikilvæg m.t.t áframhaldandi atvinnuþróunar og norðanverðra Vestfjarða sem eins atvinnusóknarsvæði. Í farvatninu er bygging kalkþörungaverksmiðju við Langeyri í Álftafirði og orkuskipti eru fram undan til sjós og lands sem kallar á afhendingaröryggi rafmagns og örugg fjarskipti en gömul byggðalína er nú yfir fjöll til Súðavíkur og ljósleiðari er um Súðavíkurhlíð en þetta eru miklir flöskuhálsar sem kalla á úrbætur sem fyrst í afhendingaröryggi rafmagns og tryggra fjarskipta á norðanverðum Vestfjörðum. Í ljósi síendurtekinna snjóflóða og skriðuhættu í Súðavíkurhlíð sem ógnar lífi og öryggi íbúa Súðavíkur sem og vegfarenda á norðanverðum Vestfjörðum er mikið ákall íbúa á svæðinu um bættar samgöngur. Samgöngur á svæðinu m.t.t öryggi íbúa mega ekki standa í vegi fyrir áframhaldandi uppbygging. Með byggingu Álftafjarðaganga mætti stórbæta öryggi og treysta byggð og uppbyggingu á svæðinu til frambúðar.

Fyrirspurnir mínar til Innviðaráðherra eru eftirfarandi og verður fróðlegt að fá svör við þeim því nú verður að taka þessi mál föstum tökum og koma Álftafjarðargöngum í forgang !

  1. Hyggst ráðherra flýta endurskoðun núverandi Samgönguáætlunar með það að markmiði að koma Álftafjarðargöngum sem fyrst inn á framkvæmdaáætlun í ljósi öryggissjónarmiða?
  2. Hvað hefur, að mati ráðherra, breyst varðandi Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð frá fyrri samgönguáætlun fram að þeirri sem nú gildir sem réttlætir að áætlanir um Álftafjarðargöng hafi vikið af áætlun í tilliti umferðaröryggis og greiðra samgangna um fjórðunginn?
  3. Hefur alfarið verið snúið frá því að skoða það af alvöru, og þá með tilheyrandi fjármagni í samgönguáætlun, að bora milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar og leggja þannig af veginn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð?
  4. Hvaða sjónarmið ráða þegar ákveðið er að loka veginum um Súðavíkurhlíð vegna óvissuástands og yfirvofandi snjóflóðahættu og  hafa ferðaáætlanir þungaflutninga eitthvað með það að gera?
  5. Hver væru samlegðaráhrif hvað heildarkostnað varðar með lagningu nýs rafstrengs og ljósleiðara um Álftafjarðargöng og sparnaður sem yrði vegna notkunar varaafls vegna bilana á byggðalínu til Súðavíkur annars vegar, og hinsvegar endurbygging þessara innviða við núverandi aðstæður?
  6. Hvaða úrbóta á veginum um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð er  að vænta á næstu 10 árum sem myndi styðja við eitt atvinnusóknarsvæði á norðanverðum Vestfjörðum sem og þá atvinnuuppbyggingu sem er í fiskeldi, ferðaþjónustu, kalkþörungaverksmiðju ásamt öðrum iðnaði tengdum sjávarútvegi og matvælaframleiðslu á svæðinu?

Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Varaþingmaður VG.

DEILA