Áhyggjulaust ævikvöld

Þegar aldurinn færist yfir er að ýmsu að hyggja. Margar spurningar vakna eins og til dæmis hvernig er heilsan, hvernig er eftirlaunum háttað og hvað með búsetuúrræði? Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og með því að hlúa að henni getum við jafnvel aukið möguleikana á því að lifa lengur góðu lífi.

 Ég á afa sem er að verða 104 ára í vor og býr á Hlíf í eigin íbúð.  Hann fær mat í mötuneytinu í hádeginu, fær aðstoð við þrif á íbúðinni og innlit tvisvar á dag frá heilbrigðisstarfsfólki, sem passar upp á að hann taki lyfin sín og þess háttar.  Fyrir nokkrum árum var sótt um pláss fyrir hann á Eyri en hann hefur ekki enn hlotið náð fyrir augum dómnefndar, þar sem hann er talinn of heilsuhraustur.  Við aðstandendur hans erum ekki sammála því.  Honum hefur hrakað mikið á undanförnum árum, sem ekki er að undra ef aldur hans er hafður í huga. Þessa staðreynd höfum við reynt að benda á en án árangurs.  Honum var að vísu boðið pláss í tveggja manna herbergi í Bolungarvík síðast liðinn vetur.  Okkur og honum sjálfum fannst það úrræði alls ekki koma til greina.  Afi er farinn að finna það sjálfur að hann hefur ekki þrek til að hugsa um sig lengur. Hann er hættur að elda sér mat á kvöldin eins og hann hefur ætíð gert, en þann þátt heimilishaldsins sá hann um síðustu árin sem þau amma áttu saman, en hún lést haustið 2013. Hann hefur líka viljað skipta sjálfur um á rúminu einu sinni í viku og þvegið sængurfötin en nú er hann nánast örmagna við það eitt að setja lakið á rúmið.  Hann er næstum blindur og heyrir mjög illa og er því að mestu leiti hættur að horfa á sjónvarpið, sem hann hafði dægrastyttingu af lengi vel. Það er því lítið sem hann hefur við að vera og sífellt lengist sá tími sem hann liggur í rúminu á daginn. 

Afi er næstelstur allra karla á landinu og elsti íbúi Ísafjarðarbæjar. Hvernig má það vera að maður, sem hefur eitt allri starfsævinni í sveitarfélaginu, fái svo kaldar kveður? Á okkar elsta fólk ekki meiri virðingu skilið? Er ekki kominn tími til aðgerða?

Karl Kristján Ásgeirsson

DEILA