Á ferð yfir Dynjandisheiði á hávetri

Úlfar Thoroddsen.

Greinarritari og eiginkona áttu leið norður um Dynjandisheiði 14. febrúar í björtu veðri og stinningsgolu eða um 8 m/sek. Ágætt veður og vegurinn auður að mestu og það stefndi í þokkalega færð. En ekki er allt sem virðist og sýnist. Suður af fyrrum mörkum Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslu mættum við bíl sem kom að norðan. Fólkið útlendingar sagði okkur að veðrið væri hræðilegt framundan og ráðlögðu okkur að snúa við. Við töldum ekki fullt mark takandi á lýsingu útlendinganna og héldum förinni áfram. Það fór samt svo að lýsingin reyndist rétt.

Þegar kom upp undir há heiðina (500 m.y.s) tók við þéttur lágarenningur og blindandi snjófok með litlu og engu skyggni. Tæpast grilti í stiku og alls ekki unnt að greina hvort sýnileg stika væri vinstri eða hægri stika. Greinarritari varð að bregða á það ráð að fara fyrir bílnum og bjóst til að ganga á undan svo langt sem þyrfti  niður hjallana norður af há heiðinni. Taldi sér til happs að hafa nokkrum sinnum reynt sambærilegar aðstæður áður. Svo vel vildi til stuttu síðar að þjónustubíl vegagerðarinnar bar að sunnan frá. Fór hann síðan á undan með viðvörunarljósin logandi og auðvelt að fylgja honum. Skyggnið var mjög slæmt nokkur hundruð metra leið en það birti þegar neðar dró.   Í sortanum ókum við fram á tvö snjómoksturstæki að störfum nokkru neðar. Allt gekk vel að lokum.

 Í samræðum við ökumann þjónustubílsins vorum við sammála um að akstur að vetri væri mjög varhugaverður við þessar aðstæður. Oft mætti búast við slíku á þessum slóðum að vetrarlagi.   Á leiðinni niður heiðina mættum við einum bíl á suðurleið. Ekki töldum við þörf á að hafa tal af ökumanni því nokkru ofar voru snjómokstursmenn að störfum með tvö moksturstæki og þjónustubíll.

Fréttist það  síðar að bíll hefði farið seinna um daginn frá Bíldudal norður yfir Dynjandisheiði. Hefði ökumaðurinn lent í verulegum hremmingum á há heiðinni og fest bílinn en þá voru mokstursmenn farnir.

Það getur valdið verulegum vanda að festa bíl í kanti eða í snjóskafli við slíkar aðstæður.  Leiðir fyrrgreint atvik hugann að því hvað geti gerst á þessum slóðum í viðsjárverðum veðrum allt frá september fram í maí eða um 7 til 8 mánuði.

Framangreind frásögn er ekki einstæð reynsla. Margir hafa lent nánast í því sama bæði á fjallvegum og á láglendi. Það getur reynt á líkama og sál og því getur fylgt veruleg hætta vera í vandræðum í 400 til 500 metra hæð í blindbyl langt frá byggð án stuðnings annarra.

Eigi vegur um Dynjandisheiði sem fer allt upp í 500 metra hæð að verða aðal tengileiðin milli suður- og norðurhluta Vestfjarða þarf stöðugt eftirlit með öflugri vegarþjónustu að vera þar til staðar megin hluta ársins.

Ritað 18. febrúar eftir greiða ferð suður yfir Dynjandisheiði og heimkomu til Patreksfjarðar.

Úlfar B Thoroddsen

DEILA