Uppskrift vikunnar: lúða

Ég hef einhvern tímann lofað fleiri lúðuuppskriftum þar sem lúða er uppáhaldsfiskurinn minn. Nú stend ég við loforðið. Þessi  er einföld og góð og bregst aldrei.

Reyndar eins og ég segi finnst mér lúða aldrei bregðast nema ef ske kynni að hún sé elduð of lengi.

Uppskrift fyrir um það bil 4 manns

Innihald:

1200 gr. smálúða

4 skarlottulaukar/má líka alveg nota venjulegan lauk.

4 hvítlauksrif

1 rauður chili

1 dós hrein jógúrt eða 200 gr. grísk jógúrt

1 dós sýrður rjómi

1/2 – 1 askja rjómaostur með svörtum pipar

2 tsk sykur

ólífuolía

salt og pipar

Aðferð

Álpappír lagður á ofnplötu sem er penslaður með ólífuolíu og salti og pipar stráð yfir. Smálúðuflök lögð þétt saman á álpappírinn. Skarlottulaukar, hvítlauksrif og kjarnhreinsaðan rauður chilli skorin niður fremur smátt og steikt upp úr 1 msk af jómfrúarolíu við fremur lágan hita í nokkrar mínútur, þannig verður laukurinn og chilliinn sætur og góður. Jógúrti, sýrðum rjóma og rjómaosti með svörtum pipar bætt út í. Saltað og piprað og 2 teskeiðum af sykri bætt út í. Látið sósuna malla í smástund og hellið svo yfir fiskinn. Bakað við 200 gráður í 12 mínútur (15-20 mínútur fyrir þykkari fisk). Borið fram með nánast hvaða meðlæti sem er, mitt uppáhald er salat og kartöflur.

Verði ykkur að góðu.

Halla Lúthersdóttir

DEILA