Strandveiðikvóti minnkaður um 1500 tonn

Svandís Svavarsdóttir minnkaði strandveiðikvótann um 1500 tonn með reglugerð sem hún setti 21. desember sl. Strandveiðiflotinn mátti veiða 10.000 tonn af þorski síðastliðið sumar en það magn hefur verið lækkað í 8500 tonn næsta sumar.

Landssamband smábátaeigenda, LS, mótmælti þessari skerðingu á fundi með ráðherranum í síðustu viku. landssambandið segir þetta ganga þvert á þau markmið að tryggja 48 daga til strandveiða.  LS lagði áherslu á að strandveiðar væru þær veiðar sem yllu minnstu raski í hafrýminu og minnstu kolefnissótspori.  Auk þess hefðu þær reynst gríðarlega vel fyrir hinar dreifðu byggðir.  

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda og Arthús Bogason, formaður samtakanna sendu í gær bréf til sjávarútvegsráðherra þar sem farið er fram á rökstuðning fyrir reglugerðinni ásamt afriti af minnisblaði skrifstofu sjávarútvegsmála til ráðherra um málefnið.

Í reglugerðinni er ráðstafað kvóta til ýmissa verkefna, samtals 19.340 þorskígildistonn og lækkar úthlutunin um 2.374 tonn frá síðasta fiskveiðiári. Kemur lækkunin fram annars vegar til strandveiða 1.500 tonn og hins vegar til almenns byggðakvóta 874 tonn.

DEILA