Slökkvilið Ísafjarðarbæjar: 24 útköll en enginn stórbruni

Fram kemur í ársskýrsla Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2021 að útköll slökkviliðs hafi verið 24 á árinu og um helmingur þeirra voru forgangsútköll. Sem betur fer var enginn stórbruni á starfssvæði slökkviliðsins á árinu.

Verkefni slökkviliðs snéru meðal annars að vatnsleka, hreinsun á olíu eftir umferðarslys, óveður og gróðurelda.

Fastráðnir starfsmenn slökkviliðsins eru fjórir og sinna þeir öllum störfum sem inn á borð kemur til slökkviliðs, s.s. sjúkraflutningum, eldvarnareftirliti, slökkvitækjaþjónustu auk þess að skipuleggja æfingar og endurmenntun fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn.

Slökkviliðsmenn í slökkviliðinu eru samtals 54; 24 slökkviliðsmenn eru á Ísafirði og tíu slökkviliðsmenn á útstöðvum á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Þá eru vettvangsliðar í Súðavík og á Suðureyri og Flateyri.

Starfsstöðvar sjúkraflutninga eru tvær, á Ísafirði og á Þingeyri, og voru útköll sjúkrabíls samtals 420 á árinu 2021.

Þar af voru útköll í hæsta forgangi 55 og 78 útköll voru skráð með forgang. 287 sinnum var um að ræða almenna sjúkraflutninga.

DEILA