Sláturhús hugmyndir á Flateyri – fyrri hluti

Þar sem bæjarstjóri, bæjarfulltrúar og ýmsir aðrir hafa undanfarið tjáð sig á samfélagsmiðlum um mögulegt laxasláturhús á Flateyri tel ég rétt að koma með mína sýn á málið og svo í framhaldinu nokkrar staðreyndir og því verður þetta því í tveimur hlutum.

Þegar kemur að laxeldi þarf að gæta að ýmsu sem margir virðast ekki átta sig á – þar á meðal sýkingarhættu á milli svæða, í sama firði og frá öðrum svæðum og þar sem Önundarfjörður er grunnur og lítill eru líkurnar nokkrar á smiti. Þrátt fyrir að einhverjir vilji meina að lítil hætta sé af smiti vegna sláturhúss á Flateyri þá virðist enginn geta staðfest að svo sé. Það eru því einungis ósannaðar fullyrðingar tiltekinna aðila.  Smit frá sláturhúsi er áhætta og mögulegt smit frá biðkvíum er önnur og órannsökuð hætta.

Siglingar með þúsundir tonna af laxi frá öðrum svæðum og sú framkvæmd að setja hann í biðkvíar, eins og heyrst hefur að áform séu um, munu eðli málsins hafa áhrif.  Hver ætlar að taka ábyrgð á ósönnuðum fullyrðingum um að ekkert af þessu muni hafa áhrif á fiskeldi í firðinum?

Varaformaður bæjarráðs hefur það eftir forstjóra Arctic Fish eftir bæjarráðsfund að það hafi einkum verið vegna yfirlýstrar andstöðu ákveðins fyrirtækis sem sláturhúsáform Arctic Fish breyttust frá Flateyri yfir í Bolungarvík. Heimasíðan bb.is segir það vera ÍS47 sem varaformaðurinn vísar til. Er ekki réttast að forstjórinn skýri sjálfur frá þessu? Getur verið að forstjóri Arctic Fish vilji meina að andstaða ÍS47 gegn sláturhúsinu á Flateyri hafi einungis verið einn fjölmargra þátta?

Eigendur ÍS47 hafa þegar fjárfest í faseignum, búnaði, seiðum ofl. Verið er að skoða aðrar fjárfestingar en einnig er verið að sækja um leyfi til stækkunar af fullum krafti með tilheyrandi vinnu og kostnaði.

Hvað er þá óeðlilegt við það að ÍS47 sem er að byggt upp sína starfsemi verji þá starfsemi og vilji koma í veg fyrir að sínum hagsmunum sé fórnað. Myndu ekki öll fyrirtæki og einstaklingar passa uppá sitt? Myndu ekki allir verja sína hagsmuni? Því telur varaformaður bæjarráðs hagsmunagæslu eins fyrirtækis merkilegra en annars?

Nanný Arna bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ sér sig knúna að fara yfir þetta sláturhússmál eins og það snýr að henni sem er gott og á hún hrós skilið fyrir það.

Það sem mér finnst athyglisvert er hversu þétt bæjarráð og starfsmenn Ísafjarðarbæjar unnu með hagsmunaaðilum eins og Nanný Arna nefnir og sérstaklega athyglisvert þar sem ÍS47 ehf er augljóslega hagsmunaaðili.

Samskipti bæjaryfirvalda við ÍS47 voru einungis um það að ÍS47 eigi að liðka til vegna hagsmuna annars fyrirtækis. Hver á að liðka til vegna ÍS47? Eða er þetta bara í eina áttina?

Gísli Jón Kristjánsson stofnandi ÍS 47

DEILA