Sjávarútvegsráðherra: minnkandi veiðiráðgjöf vandinn

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra var þá heilbrigðisráðherra.

Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegsráðherra segir að lækkuð veiðiráðgjöf hafi gert það óhjákvæmilegt að skerða þorskkvóta til strandveiða og bygðakvóta. Þá útilokar hún ekki að unnt verði að auka kvótann síðar á árinu vegna viðskipta á tilboðsmarkaði með uppsjávartegundir.

Bæjarins besta óskaði eftir skýringum á 1500 tonna skerðingu á þorkskvóta í strandveiðum og nærri 800 tonna skerðingu á alm byggðakvóta sem ákveðin var í desember sl.

Svör ráðherrans voru eftirfarandi:

„Skerðingin byggir á vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar en vísindaleg ráðgjöf um hámarksafla er hornsteinn íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Í ljósi þess að veiðiráðgjöf í þorski var lækkuð umtalsvert síðasta sumar, stefndi í að úthlutun aflaheimilda færi umfram leyfilegan heildarafla. Tilboðsmarkaðir í loðnu stóðu auk þess ekki undir væntingum að þessu sinni. Óhjákvæmilegt var að bregðast við til þess að ráðstöfun færi ekki umfram vísindalega ráðgjöf. Ég stóð frammi fyrir því að ekki var hægt að lækka ráðstöfun í rækju- og skelbætur ásamt sérstökum byggðakvóta þar sem þeim hafði verið úthlutað á skip í upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs. Loks var það mat sérfræðinga ráðuneytisins að lækkun á línuívilnun og frístundaveiði myndi skila óverulegum árangri í þessu samhengi. Þá stóðu eftir tveir pottar, strandveiðar og almennur byggðakvóti og ljóst að lækka þyrfti ráðstöfun til þeirra þátta.

Að sinni tel ég ekki ástæðu til að endurskoða þann afla sem er áætlaður strandveiðum og ganga þar með gegn vísindalegri ráðgjöf. Þó er mikilvægt að hafa í huga að enn á eftir að eiga sér stað tilboðsmarkaður í nokkrum tegundum, t.a.m. kolmunna, þorski úr Barentshafi, makríl  og norsk-íslenskri síld. Því mun staðan breytast þegar líður á árið og líklegast að hægt verði að auka ráðstöfun í potta líkt og á síðasta fiskveiðiári.

DEILA