Ríkið tekur við Litlabæ og Hraunskirkju

Litlibær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í fjárlögum ríkisins fyrir yfirstandandi ár sem samþykkt voru fyrir áramót er fjármálaráðherra veitt heimild til þess að þiggja að gjöf fasteignir á Litlabæ í Skötufirði og Hraunskirkju í Keldudal til varðveislu í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.

Litlibær í Skötufirði var reistur 1895 af tveimur vinafjölskyldum sem bjuggu upphaflega sín í hvorum hluta hússins og var því þá skipt í miðju með þvervegg. Húsið er úr timbri með steinhlöðnum veggjum upp að langhliðum og grasi á þökum.

Litlibær er aðeins 3,9m x 7,4m að grunnfleti (utanmál) en portbyggt loft er yfir jarðhæð. Tvö útieldhús voru skammt frá íbúðarhúsinu, og alls munu liðlega 20 manns hafa búið í Litlabæ á tímabili. Frá árinu 1917 bjó aðeins ein fjölskylda á jörðinni. Búið var í Litlabæ fram til 1969.

Undir forystu Þjóðmunjasafnsins hófust endurbætur á húsinu 1999 og Í júní 2013 var undiritaður samningur um framtíðarvarðveislu Litlabæjar í Skötufirði og minjanna á svæðinu sem nú eru formlega í eigu Þjóðminjasafns Íslands.

Í Litlabæ er opin yfir sumartímann og seldar veitingar, kaffi og meðlæti af miklum myndarskap.

Hraunskirkja er í Keldudal í Dýrafirði. Hún var reist 1885.

Hraunskirkja er af elstu formgerð turnlausra íslenskra timburkirkna. Sérkenni kirkjunnar er þakspónninn en þannig var hún smíðuð í upphafi. Fljótlega var hún þó klædd með bárujárni.

Kirkjan var aflögð sem sóknarkirkja árið 1971 en dalurinn fór í eyði árið 1967. Um tíma stóð til að rífa hana en fyrir tilstuðlan Þjóðminjasafns Íslands var horfið frá því og gagngerar viðgerðir fóru fram á vegum safnsins árin 1998-1999. Hún var tekin aftur í notkun árið 2000 og er nú í vörslu Þjóðminjasafnsins.  

Hraun í Keldudal.

DEILA