Miðflokkurinn: vilja hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum

Lína Orkubús Vestfjarða í klakaböndum.

Þingmenn Miðflokksins, Bergþór Ólason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum.

Lagt er til að fela ríkisstjórninni að tryggja Vestfirðingum sama afhendingaröryggi rafmagns og öðrum landsmönnum með því að koma á hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum.

Í greinargerð með tillögunni segir að með hringtengingu er átt við að orka geti borist úr tveimur áttum en ekki einni. Verði bilun á annarri línunni berst rafmagn áfram með hinni.

500 tonn af olíu á ári

Aðstæðum á Vestfjörðum er svo lýst:

Nú kemur allt aðflutt rafmagn til Vestfjarða með einni línu, Vesturlínu. Hún er rúmlega 161 km löng, milli Hrútatungu og Mjólkárvirkjunar, og liggur yfir svæði sem er bæði veðurfarslega og landfræðilega erfitt. Vestfirðingar eru háðir innflutningi orku af meginflutningskerfi landsins og þaðan fá þeir ríflega 40% þeirrar raforku sem notuð er í landshlutanum.

Vegna fyrirvaralausra bilana og viðhalds á flutningskerfi raforku á Vestfjörðum getur brennsla á dísilolíu í varaaflsstöðvum og olíukötlum hæglega numið 500 tonnum á ári. Alvarleg bilun í flutningskerfi Vestfjarða, sem varir dögum saman, getur margfaldað þessa tölu.

Fyrir liggur að eftirspurn er eftir aukinni orku með tilkomu vaxandi fiskeldis og nýrrar kalkþörungaverksmiðju í Súðavík. því verði að bregðast skjótt við. Vænlegast sé að auka framleiðsluna í fjórungnum með nýrri virkjun svo sem Hvalárvirkjun en óvissa ríki um þau áform og því sé hringtengingin nauðsynleg nú hvort sem af virkjunni verði eða ekki.

Flutningsmenn segja að áætlaður kostnaður vegna uppbyggingar samkeppnishæfs flutningskerfis á Vestfjörðum sé á annan tug milljarða króna. „Atvinnustefna sem byggist á hægfara aukningu og fjölbreyttri starfsemi gæti greitt fyrir uppbyggingu á löngum tíma en þá þurfa stjórnvöld að veita Landsneti ábyrgð til að mæta fjármagnskostnaði vegna uppbyggingarinnar.“ 

DEILA