Jón Páll: hef áhyggjur af skorti á raforku á Vestfjörðum

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segist hafa áhyggjur af boðaðri skerðingu á forgangsorku á Vestfjörðum. Vestfirðingar hafi ekki möguleika á að draga úr annarri notkun á raforku eins og víða annars staðar er mögulegt þar sem fjórðungurinn er háður aðflutningi raforku. Sú staða leiði til þess að orka er framleidd með olíu sem aftur verður til þess að auka kolefnisspor þeirrar vöru sem framleidd er á Vestfjörðum, svo sem lax og annarra sjávarafurða og iðnaðarvöru. Því fylgir neikvæð langtímaáhrif fyrir Vestfirði ef ekki verður hægt að treysta á afhendingu raforku.

Annar þáttur í orkumálunum á Vestfjörðum er skortur á afhendingaröryggi hefur verið viðvarandi vandamál og bætist við fyrri þáttinn. Samanlagt gera þessar aðstæður Vestfirðingum erfitt fyrir um að ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti á næstu árum.

Bæjarráð Bolungavík ræddi á fundi sínum í gær um skipulag framkvæmda og framtíð orkuskipta í Bolungarvíkurhöfn. Bæjarráð fól bæjarstjóra að kynna hugmyndir fyrir Hafnarstjórn Bolungavíkurkaupstaðar og vinna málið áfram.

Jón Páll Hreinsson segir að Bolungavík hafi metnað til þess að vera í fremstu röð en það sé mikilvægt að Vestfirðingum verði tryggð orka á svæðinu en án þess verður rýrð geta til framþróunar í fjórðungnum.

DEILA