Jarðgöng á Vestfjörðum – engin göng á áætlun næstu 12 árin

Í fyrradag stóð Vestfjarðastofa fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga fyrir kynningarfundi um jarðgöng á Vestfjörðum. kynnt var jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði sem sveitarstjórnarmenn fjórðungsins hafa komið sér saman um og auk þess var kynnt samfélagsgreining vegna jarðganga sem KPMG vann fyrir Vestfjarðastofu.

Fundurinn var öllum opinn, með fjarfundarsniði og meðal þátttakenda voru Samgönguráðherra, formaður samgöngunefndar Alþingis og embættismenn sem  í ráðuneytum og stofnunum sem tengjast samgöngumálum auk sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum.

Meðal þess sem fram kom var að í gildandi samgönguáætlun væru engin göng á Vestfjörðum á áætlun næstu 12 árin.

Í jarðgangaáætlun Vestfirðinga eru fjórar framkvæmdir settar í forgang. Þrjú ný göng um Hálfdán, Mikladal og Súðavíkurgöng. Fjórða framkvæmdin er svo breikkun Vestfjarðaganga. Kostnaður er talinn vera um 48 milljarðar króna.

Í samfélagsgreiningu KPMG eru dregnar fram staðreyndir varðandi vaxandi atvinnulíf, breytingar í samfélagsgerð og kröfum sem gerðar eru til búsetukosta. Eftirfarandi glæra lýsir vel áhrifum af slæmum samgöngum á Vestfjörðum.

Tölurnar tala sínu máli. Glæra úr erindi Sævars Kristinssonar KPMG.

DEILA