Ísafjarðarbæ: mikil endurnýjun hjá Sjálfstæðismönnum

Jónas Þór Birgisson.

Mikil endurnýjun er fyrirsjáanleg hjá Sjálfstæðismönnum í Ísafjarðarbæ við næstu bæjarstjórnarkosningar. Enginn þeirra þriggja bæjarfulltrúa sem kosnir voru 2018 mun gefa kost á sér áfram. Daníel Jakobsson, oddviti listans hefur þegar tilkynnt að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri. Hafdís Gunnarsdóttir var í öðru sæti en hefur tekið við starfi sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ og látið af störfum í bæjarstjóninni. Sif Huld Albertsdóttir var þriðji bæjarfulltrúinn en hún sagði af sér í fyrra vegna eineltis sem hún sagði að ekki hef’i verið tekið á af hálfu bæjaryfirvalda. Sátt var gerð í málinu en hún hefur ekki verið gerð opinber.

Jónas Þór Birgisson, sem var í fjórða sæti, færðist upp og er nú bæjarfulltrúi. Hann segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að hann hafi tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á sér núna og hafi þegar tilkynnt fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Ísafjarðarbæ um ákvörðun sina.  „Það getur vel verið að ég bjóði mig fram að fjórum árum liðnum en það kemur bara í ljós.“

Steinunn G. Einarsdóttir, sem var í fimmta sæti er einnig bæjarfulltrúi nú. Hún sagðist ekki hafa ákveðið sig ennþá en vonaðist til þess að svar hennar lægi fyrir fljótlega.

DEILA