Héraðsdómur Vestfjarða vísaði frá dómi kröfum Tálknafjarðarhrepps á Arnarlax

Kvíar í Arnarfirði.

Á mánudaginn vísaði Héraðsdómur Vestfjarða frá dómi kröfum Tálknafjarðarhrepps á Arnarlax og sagði málið ekki tækt til efnismeðferðar.

Tálknafjarðarhreppur krafðist þess að Arnarlax greiddi reikninga að fjárhæð kr. 120.833 ásamt dráttarvöxtum frá 31.1. 2021 og málskostnaðar að auki.

Krafa sveitarfélagsins er vegna vörugjalda af annars vegar flutningi á fóðri í pramma og hins vegar af dauðum laxi sem landað var í Tálknafjarðarhöfn.

Arnarlax krafðist frávísunar vegna vanreifunar kröfunnar.

Í dómi Héraðsdóms segir að stefnandi vísi hvergi til þess í stefnunni hver lagagrundvöllur er fyrir kröfunni né settar fram málsástæður sem byggja eigi á þeim grundvelli. Það sé hins vegar forsenda málshöfðunar samkvæmt lögum um meðferð einkamála. Því sé malið ekki tækt til efnismeðferðar og beri dómara að vísa því frá dómi.

Fram kemur í gögnum málsins að ætla megi að Tálknafjarðarhreppur styðjist í kröfum sínum við hafnalög og gjaldskrá hafnarinnar sem sett er með heimild í þeim lögum. Arnarlax mótmælir kröfunni um vörugjöld af fóðri þar sem það sé flutt inn erlendis frá og losað beint í fóðurpramma við eldiskvíar. Fóðrið komi því aldrei inn á hafnarsvæðið og falli ekki undir gjaldskrána. Varðandi dauða laxinn þá sé ekki um vöru að ræða enda verðlaus fiskur sem er landað til förgunar.

Svo sem fram kemur í dómnum var ekki tekin afstaða til þessara krafna þar sem málinu var vísað frá.

DEILA