Framkvæmdahugur í Kaldrananeshreppi

Drangsnes. Mynd: Sturla Páll Sturluson.

Mikill framkvæmdahugur er í hreppsnefnd Kaldrananeshrepps. Í fjárhagsáætlun fyrir 2022 sem afgreidd var skömmu fyrir jól er gert ráð fyrir að verja um 80 miljónum króna til framkvæmda í sveitarfélaginu. Þær verða fjármagnaðar með sölu eigna fyrir 35 milljónir króna og því að taka 45 mkr. langtímalán.

Finnur Ólafsson, oddviti sagði í samtali við Bæjarins besta að ásetningur sveitarstjórnar með framkvæmdaáætluninni væri stýra þróun sveitarfélagsins með því að byggja upp nauðsynlega innviði. Það yrði unnið að því að virkja heitt vatn, lagfæra götur og lagnakerfi á Drangsnesi og fjölga lóðum þar og ráðast í uppbyggingu lítilla húsa.

Í fyrra voru boraðar rannsóknarholur fyrir heitt vatn bæði á Drangsnesi og í Bjarnarfirði og á þessu ári verður varið 25 m.kr. til þess að bora vinnsluholur. Annars vegar verður borað í miðju þorpinu við Grunnskólann og 3 holur í Bjarnarfirði á jörðinni Klúku. Vatnið í Bjarnarfirðinum mun styrkja uppbyggingu ferðaþjónustu og jafnvel gera hitaveitu í firðinum.

Þá er ætlunin að reisa skemmu eða iðnaðar/björgunarmiðstöð fyrir slökkviliðið og björgunarsveitina á Drangsnesi og komið upp góðri aðstöðu. Til þessa er varið 25-30 m.kr.

Til byggingar smáhýsa er varið 15 m.kr. Þar er horft á 50 fermetra hús svipuð og Húsasmiðjan hefur kynnt. Kostnaður er áætlaður um 15 m.kr. Vonast er til þess að a.m.k. eitt smáhús seljst og þá verður hægt að reisa annað.

DEILA