Ekkjan á Gamla spítalanum

Línuveiðarinn Fróði þegar hann kemur til Reykjavíkur. Ljósmyndin er úr Virkinu í norðri eftir Gunnar M. Magnússon frá 1984.

Í bókinni Rætur eftir Ólaf Ragnar Grímsson fyrrverandi forseta þar sem hann greinir frá uppvaxtarárunum nefnir hann ekkju á Þingeyri sem bjó á Gamla spítalanum með unga syni; faðirinn hafði drukknað þegar skip hans sökk á stríðsárunum. Þar er Ólafur að vísa til móður okkar Ragnheiðar Stefánsdóttur og fráfalls eiginmanns hennar, Steinþórs Árnasonar. Um þessar mundir eru 110 ár liðin frá fæðingu mömmu og því ekki úr vegi að rifja upp atburðarásina sem breytti svo miklu fyrir mömmu, hennar nánustu og nokkrar aðrar fjölskyldur í Dýrafirði á örlagaríkri nótt vorið 1941.

Mamma átti tvö börn, Guðrúnu og Steinþór sem nú eru látin auk þess að vera ófrísk að undirrituðum þegar hún missti eiginmann sinn 11. mars 1941. Í Morgunblaðinu 11. mars 2012 er frásögn af árás þýsks kafbáts á línuveiðarann Fróða. Þannig greinir blaðið frá atburðunum:

“Þrír menn féllu samstundis og þrír til viðbótar særðust alvarlega þegar þýskur kafbátur skaut á línuveiðarann Fróða um 200 mílur suðvestur af Vestmannaeyjum eldsnemma 11. mars 1941. Skipstjórinn gaf mönnum sínum fyrirmæli um að fara tafarlaust í björgunarbátinn en ekki varð af því þar sem björgunarbáturinn var skotinn í tætlur. Skothríðin dundi á skipinu með nokkrum hvíldum í um klukkustund, að því búnu hvarf kafbáturinn á braut. Skipið var lekt og talsvert laskað en eigi að síður haffært og var því ákveðið að snúa við til Vestmannaeyja en Fróði var á leið til Fleetwood á Englandi með ísfisk. Á leiðinni til hafnar létust tveir af þremur skipverjum sem særðust í árásinni af sárum sínum, Gunnar Árnason skipstjóri og bróðir hans, Steinþór Árnason háseti.”

Mikilvægt er að haldið sé til haga frásögnum af dirfsku og hugrekki íslenskra sjómanna við að koma aðföngum til breskra bandamanna okkar á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Dagarnir 10. til 12. mars 1941 voru afdrífaríkir í þeim efnum er tveimur íslenskum skipum var sökkt en Fróða tókst að komast til Vestmannaeyja.  Aðeins einum degi áður, 10. mars 1941, fórust þrettán menn en tveir komust lífs af þegar þýskur kafbátur grandaði Reykjaborg, stærsta togaranum í íslenska fiskiskipaflotanum, og degi síðar, 12. mars 1941, hvarf línuveiðarinn Pétursey. Síðar kom á daginn að þýskur kafbátur hafði sökkt honum með tíu manna áhöfn. Allt gerðist þetta á siglingaleiðinni milli Íslands og Bretlands.

Það var gaman að lesa frásögn Ólafs Ragnars af einkakennslu sem hann var settur í hjá Lýð Jónssyni yfirvegaverkstjóra, föður mínum, sem notaði kvæði Einars Benediktssonar sem forskrift. Kennslan fór fram á Gamla spítalanum þar sem pabbi leigði herbergi og stofu hjá mömmu sem rak þar matsölu. Gerði Lýður kröfu um að Ólafur Ragnar, þá sex ára, lærði kvæðin utan að en verðandi forseti kunni að lesa þegar hann settist á skólabekk. Amma hans hafði séð um það.

Afleiðingar skotárásarinnar á Fróða voru miklar fyrir móður okkar og mikil blóðtaka fyrir samfélagið í Dýrafirði. Auk eiginmanns síns, Steinþórs Árnasonar, missti mamma mág sinn Gunnar Árnason, bróður Guðmund Stefánsson og frænda Gísla Guðmundsson. Auk þeirra féll Sigurður Jörundsson stýrimaður frá Hrísey í árásinni. Blessuð sé minning þeirra og móður okkar.

Gunnar Steinþór Steinþórsson

 Sigríður Kristín Lýðsdóttir

DEILA