Bolungavík aflahæsta höfnin á Vestfjörðum

Bolungavíkurhöfn í júlí 2021. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bolungavíkurhöfn varð aflahæst á Vestfjörðum á síðasta ári. Alls var landað þar 19.184 tonnum af bolfiski. Heildarafli í vestfirskum höfnum varð 55 þúsund tonn samkvæmt tölum frá Fiskistofu.

Ísafjarðarhöfn var næsthæsta löndunarhöfnin með 16.808 tonn af bolfiski og rækju. Að auki var landað þar 818 tonnum af innfluttri rækju.

Patrekshöfn kemur næst með 6.855 tonna landaðan afla.

Suðureyrarhöfn kemur í fjórða sæti en þar var landað 3.487 tonnum. Tálknafjarðarhöfn kemur næst með 1.933 tonn, Þingeyrarhöfn með 1.741 tonn og Drangsnes þar sem 1.638 tonn af fiski, þar með talið grásleppu, kom á land.

Á Flateyri komu 899 tonn á land, Hólmavík með 871 tonn og auk þess 625 tonn af innfluttri rækju, Norðurfjörður í Árneshreppi kemur þar á eftir með 659 tonn, Súðavík með 520 tonn og loks Bíldudalur með 334 tonn.

Fjöldi landana var mjög mismunandi eftir höfnum. Strandveiðar voru mikið stundaðar frá Bolungavík, Patreksfirði, Norðurfirði og Suðureyri og þar voru landanir margar. Flestar voru þær í Bolungavík eða 3.250, þá 2.220 í Patrekshöfn og 1518 á Suðureyri. Einnig voru landanir margar frá Súðavík, Norðurfirði og Tálknafirði eða á níunda hundrað í hverri þeirra.

Hið gagnstæða á við um Ísafjarðarhöfn, en þar voru aðeins 300 landanir sem endurspegla að útgerð þar byggist á togurnum og lítil sem smábátaútgerð er þaðan.

DEILA