Arctic Oddi kaupir nýbyggingu Fiskmarkaðs Bolungavíkur

Sten Ove Tveiten.

Arctic Oddi ehf. dótturfélag laxeldisfyrirtækisins Arctic Fish ehf.  á Vestfjörðum hefur keypt nýbyggingu Fiskmarkaðs Bolungarvíkur að Brimbrjótsgötu 12 í Bolungarvík. Fyrirhugað er að koma upp laxasláturhúsi í byggingunni og vill félagið tryggja sér húsnæði með það í huga.

Sláturmál fyrirtækisins hafa verið í skoðun um nokkurt skeið og hefur þar verið horft til þess að nýta stærðarhagkvæmni þess að byggja eitt stórt sláturhús fyrir stærsta hluta þeirrar framleiðslu sem kemur frá Vestfjörðum. Margir staðir hafa verið til skoðunar sem og samstarf við önnur eldisfyrirtæki um þá framkvæmd í nokkrum sveitarfélögum. Í fréttatilkynningu frá Arctic Fish segir að sú skoðun hafi dregist og ekki sé fyrirséð hvenær henni líkur. Hafa beri í huga að byggingartími slíkrar framkvæmdar er um tvö ár.  Á sama tíma stækkar eldi fyrirtækisins hratt og núverandi sláturgeta er takmörkuð. Það hefur leitt til þess að ekki hefur verið hægt að anna allri eftirspurn eftir slátrun stóran hluta þessa árs. Með aukinni framleiðslu er fyrirséð að þetta verði staðan þar til að sláturgeta á Vestfjörðum hefur verið aukin. Með það í huga þarf félagið að tryggja sér aukið aðgengi að slátrun eins fljótt og auðið er.

„Með því að kaupa umrætt húsnæði sem hentar vel fyrir þessa starfsemi og er nánast tilbúið er mögulegt á tiltölulega stuttum tíma að koma upp sláturhúsi sem annar þeirri framleiðslu sem framundan er.  Þrátt fyrir að ákvörðun um fjárfestingu í sláturhúsi liggi ekki fyrir vill félagið tryggja sér húsnæðið með það að markmiði að koma þar upp sláturhúsi sem annar framleiðslu fyrirtækisins“, segir, Stein Ove Tveiten forstjóri Arctic Fish.

DEILA