Arctic Fish mögulega selt

Klaus Hatlebrekke forstjóri NRS.

Á dögunum undirritaði norska lax­eld­is­sam­steyp­an Norway Royal Salmon ASA (NRS) og dótt­ur­fé­lagið NRS Farm­ing AS samn­ing um kaup NRS Farm­ing á öllu hluta­fé í lax­eld­is­fyr­ir­tæk­inu SalmoN­or AS. Verðið er 6,3 milljarðar norskra króna. Um 70% af kaup­verði verður greitt með hluta­fé og um 30% með pen­ing­um. Gangi kaupin eftir verður NRS 6. stærsta laxeldisfyrirtæki í heiminum með heim­ild­ir til fram­leiðslu á 100 þúsund tonn­um af laxi í Nor­egi og 24 þúsund tonn­um á Íslandi. NRS á meirihluta hlutafjár 51,3% í eldisfyrirtækinu Arctic Fish á Vestfjörðum.

Í frétt um málið á veffréttamiðlinum ilaks.no í gær segir Klaus Hat­lebr­ekke, for­stjóri NRS aðspurður að sala á eignum NRS sé einn möguleiki til að afla fjár til greiðslu á kaupverðinu. Hann var spurður hvort sala á Arctic Fish væri á dagskránni, en fyrirtækið er metið á 2,8 milljarða norksra króna eða ríflega 40 milljarða íslenskra króna.

Hann svaraði því til að Arctic Fish hefði gert það mjög gott. Það væri möguleiki að selja fyrirtækið en NRS líkaði mjög vel við það.

„Arctic Fish har gjort det veldig bra. Det er et alternativ, men det er et selskap som vi liker veldig veldig godt.“

Ekki er langt síðan að SalM­ar, eig­andi Arn­ar­lax, freistaði þess að kaupa meiri­hluta í NRS en varð undir í samkeppni við núverandi meirihlutaeigendur.

DEILA