Arctic Fish: andstaða ÍS47 við sláturhús á Flateyri var vendipunturinn

Fram kom hjá forstjóra Arctic Fish Stein Ove Tveiten á fundi hans með bæjarráði Ísafjarðarbæjar þann 10. janúar að andstaða ákveðins fyrirtækis væri ástæðan fyrir því að horfið var frá hugmyndum um laxasláturhús á Flateyri. Þetta kemur fram í svari Marzellíusar Sveinbjörnssonar varaformanns bæjarráðs við fyrirspurn Bæjarins besta. Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs vék af fundi undir þessum dagskrárlið. Ekki kemur fram í svarinu hvert það fyrirtæki er, en fram hefur komið að ÍS47 ehf beitti sér gegn áformunum.

Svar Marzellíusar í heild:

„Stein Öve Tveiten forstjóri Arctic Fish mætti á fund bæjarráðs þann 10. Janúar s.l. og fór yfir ákvörðun fyrirtækisins um að staðsetja laxasláturhús fyrirtækisins í Bolungarvík. Fram kom í máli Stein að starfsemin í sláturhúsinu þyrfti að vera komin í gagnið í byrjun næsta árs og því hafi það verið mat fyrirtækisins að þetta væri besti kosturinn í stöðunni. Ástæðan fyrir því að horfið var frá hugmyndum um staðsetningu laxasláturhúss á Flateyri var einkum vegna yfirlýstrar andstöðu við þau áform af hálfu ákveðins fyrirtækis. En sú andstaða hefði mögulega þýtt tafir á verkefninu í langan tíma og þann tíma hefur fyrirtækið ekki. Hann lýsti jafnframt yfir áhuga á að ræða við bæjaryfirvöld á Ísafirði um nýtingu á fasteignum og lóðum á Flateyri.“

DEILA