34% fiskeldis landsins á Vestfjörðum

Eldiskvíar.

Árið 2019 var 34% af öllu fiskeldi landsins á Vestfjörðum. Er þá átt við samanlagt eldi í sjó og á landi. Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu Byggastofnunar um hagvöxt landshluta á árunum 2012-2019. Það var hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem vann skýrsluna í samvinnu við Byggðastofnun. Fimmtungur fiskeldisins það ár var á Suðurnesjum og um 18% á höfuðborgarsvæðinu. Annars staðar var það innan við 10%.

Hraður vöxtur hefur verið í fiskeldinu á síðustu árum. Árið 2019 tvöfaldaðist framleiðslan milli ára og árið 2020 jókst hún enn um 27% til viðbótar samkvæmt Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins. Þá fór heildarframleiðslan á eldisfiski í nærri 40 þúsund tonn af óslægðum fiski. Þar af voru nærri 35 þúsund tonn eldislax úr sjókvíum. Á Vestfjörðum var slátrað 22.500 tonnum árið 2020, einkum af laxi, og jókst verulega frá 2019 þegar slátrað var 16.100 tonnum. Eldið á Suðurnesjum er einkum bleikjuframleiðsla og á Suðurlandi er klak og framleiðsla á seiðum veigamest.

Fiskeldið var árið 2019 um 8,3% af framleiðslu atvinnuveganna á Vestfjörðum og er það langhæsta hlutfallið á landinu. Næst koma Suðurnesin með fiskeldið 1,4% sem er aðeins sjötti hluti þess sem það er á Vestfjörðum. Árið 2012 var hlutur fiskeldis aðeins 1,5% af framleiðslunni á Vestfjörðum það ár og rúmlega fimmfaldaðist fram til 2019.

25% hagvöxtur á 7 árum

Fram kemur i skýrslu Byggðastofnunar að hagvöxturinn á Vestfjörðum á 7 ára tímabili frá 2012-2019 hafi verið 25%. Landsmeðaltalið var hins vegar 35%. Mest á Suðurnesjum 76%, Suðurlandi 41% og á höfuðborgarsvæðinu 35%, en frá 12- 27% á öðrum landssvæðum. Mikilvægasta atvinnugreinin á Vestfjörðum var sjávarútvegurinn, en 27% af allri framleiðslu á Vestfjörðum var í sjávarútvegi, sem er langhæsta hlutfallið á landinu. Hlutur Vestfirðinga í sjávarútvegi landsins var 7% þótt íbúafjöldinn sé ekki nema um 2%.

Stór hluti af hagvextinum á Vestfjörðum kom frá aukningu í fiskeldinu eða um 5% af þeim 25% sem hann var á þessu 7 ára tímabili. Um 6,5% af hagvextinum kom frá sjávarútvegi, þannig að hann og fiskeldið standa undir nærri helmingi alls hagvaxtar á Vestfjörðum 2012-2019.

„Sérstaklega munar um eldið á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem byggð stóð um tíma höllum fæti.“ segir í skýrslu Byggðastofnunar.

Miklir fólksflutningar einkenna þetta tímabil. Mestir flutningar eru milli Vestfjarða og höfuðborgarsvæðisins og Vestfjarða og útlanda. Heldur hefur hallað á Vestfirði í flutningunum. Samtals fluttu 4.966 manns frá Vestfjörðum á árunum 2012 til 2019, en 4.314 fluttu þangað á sama tíma.

Mynd úr skýrslu Byggðastofnunar.

DEILA