Vesturbyggð: vill sameiningu við Tálknafjörð

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum í gær að óska eftir viðræðum við sveitarstjórn Tálknafjarðahrepps um mögulega útfærslu á sameiningamöguleikum sveitarfélaganna tveggja. Vísar bæjarstjórnin til lokaskýrslu RR Ráðgjafar um Könnun á sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðahrepps.

Markmið skýrslunnar, sem unnin var fyrir Vesturbyggð, er að veita íbúum í Vesturbyggð og bæjarstjórn forsendur til að taka afstöðu ti þess hvort æskilegt sé fyrir Vesturbyggð að leita eftir viðræðum við Tálknafjarðahrepp um sameiningu sveitarfélaganna.

Í skýrslunni eru greindir styrkleikar, veikleikar, ógnanir og tækifæri Vesturbyggðar ef til sameiningar sveitarfélagsins kemur. Helstu niðurstöður skýrslunnar, samkvæmt bókun bæjarstjórnarinnar, eru að mikið samstarf er nú þegar milli sveitarfélaganna tveggja og myndi það gera sameiningarferlið skilvirkara og aukin von um samlegð. Þá geti sameining þessara tveggja sveitarfélaga leitt til betri yfirsýnar yfir innviði á sunnanverðum Vestfjörðum og tækifæri til nýtingar þeirra. Þá kom fram á íbúafundi sem haldinn var í Vesturbyggð í tengslum við vinnslu skýrslunnar að meirihluti þátttakenda vildu að Vesturbyggð myndi hefja sameiningaviðræður við Tálknafjarðahrepp.

Einnig var tekið fyrir á bæjarstjórnarfundinum í gær erindi Tálknafjarðarhrepps, þar sem óskað er eftir óformlegum viðræðum um sameiningu sveitarfélaga á Vestfjörðum, þ.e. öllum nema Ísafjarðabæ.

Bæjarstjórnin tók undir  bókun bæjarráðs , sem telur ótímabært að hefja viðræður við öll þau sveitarfélög sem tilgreind eru í erindinu. En Vesturbyggð lýst vel á hugmyndir um að komið verði á fót heimastjórnum sambærilegum og í Múlaþingi.

DEILA