Vesturbyggð: áforma nýja smábátahöfn á Brjánslæk

Teikning af áformuðum framkvæmdum.

Hafnarsjóður Vesturbyggðar áformar að byggja nýja smábátahöfn á Brjánslæk og gera 123 m langan grjótgarð.

Að mati framkvæmdaaðila þá hafa framkvæmdirnar ekki umtalsverð umhverfisáhrif en þær eru hins vegar innan friðlýsts svæðis Breiðafjarðar.

Þegar byggingu grjótgarðsins er lokið verðum steyptum landstöpli komið fyrir og flotbryggja fest við hann. Loks verður timburbryggjan á Brjánslæk, byggð árið 1967 rifin , enda er mannvirkið orðið stórhættulegt. Áætlað er að verkið hefjist á vormánuðum 2022 og taki um 4 mánuði. Öllu efni sem fellur til við förgunina verður skilað inn til viðurkennds móttökuaðila, Kubbur ehf. sér um sorphirðu innan Vesturbyggðar og verður efninu skilað þangað.

Skipulagsstofnun hefur verið tilkynnt um áformin og hún ákveður hvort framkvæmdirnar þurfi að fara í umhverfismat. Vesturbyggð er meðal umsagnaraðila sem Skipulagsstofnun leitaði til áður en ákvörðun verður tekin um matsskyldu.

Í umsögn bæjarráðs Vesturbyggðar segir að nægileg grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun. Framkvæmdin skuli því ekki háð umhverfismati.

„Framkvæmdir við smábátahöfn á Brjánslæk eru fyrirhugaðar á þegar röskuðu svæði hafnarinnar og mun framkvæmdin ekki skerða fjörur við Breiðafjörð og hafa óveruleg áhrif á náttúrufar. Með framkvæmdinni aukast möguleikar til að stunda sjósókn frá Brjánslækjarhöfn allt árið um kring og mun auka öryggi við Brjánslækjarhöfn til muna, bæði fyrir sjómenn en einnig farþega ferjunnar Baldurs.“

 

DEILA