Vestfirðir: 1,6% íbúafjölgun

Frá Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 1,6% síðustu 12 mánuði samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands. Í desember 2020 voru 7.099 íbúar í fjórðungnum en þeir voru 7.210 þann 1. desember 2021 eða 111 fleiri.

Þetta er heldur undir landsmeðaltalinu sem var 2% fjölgun landsmanna á þessum tíma. Alls fjölgaði um 7.345 manns, þar af var 90% fjölgunarinnar á suðvesturhorni landsins. Landsmenn voru 376 þúsund um síðustu mánaðamót. Hlutfallsleg mest fjölgun var á Suðurlandi 3,3%, þá 2,9% á Suðurnesjum og svo 1,9% á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra fjölgaði um 1,6%, á Austurlandi 1,5% en aðeins 0,2 % á Norðurlandi vestra.

Mest fjölgun í Vesturbyggð

Mest var fjölgunin á Vestfjörðum í Vesturbyggð. Þar fjölgaði um 68 manns sem eru 6,4%. Óvíða á landinu varð meiri fólksfjölgun en í Vesturbyggð. Fyrir utan tvo fámenna sveitahreppa þar sem varð meiri hlutfallsleg fjölgun, var það aðeins í Hörgársveit ( 704 manns) og Hveragerðisbær (2.982) þar sem varð meiri fólksfjölgun með 8,6% og 7,6%.

Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 52 íbúa sem er þó aðeins 1,4% fjölgun. Í Súðavík fjölgaði um 11 manns eða um 5,4%. Mest fækkun varð á Tálknafirði. Þar fækkaði um 14 manns sem gerir 5,2% fækkun.

DEILA