Framkvæmdir við kláf á Ísafirði eru komnar á óvissustig að sögn Gissurar Skarphéðinssonar talmanns Eyrarkláfs, eftir úrskurð úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem kveðinn var upp i gær.
Eyrarkláfur ehf kærði til úrskurðarnefndarinnar þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2. júní að framkvæmdirnar skyldu fara í umhverfismat og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi.
Nefndin hafnaði kröfunni og segir að „Skipulagsstofnun hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hina kærðu matsskylduákvörðun, lagt viðunandi mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með ásættanlegum hætti.“
því stendur óhögguð sú niðurstaða að umhverfismat skuli fara fram.
Lýsing Skipulagsstofnunar – breyting á ásýnd
Samkvæmt lýsingu er um að ræða nokkuð umfangsmiklar framkvæmdir þegar á heildina sé litið segir Skipulagsstofnun í skýringum sínum. Samanstandi þær af byggingu byrjunarstöðvar við þéttbýlismörk á Ísafirði, uppsetningu um 1.400 m langra kláfvíra og burðarmasturs um miðja vegu upp Eyrarfjall og síðan byggingu endastöðvar, veitingasalar og hótels fyrir um 60-70 gesti á toppi fjallsins. Séu framkvæmdirnar að mestu leyti á óröskuðu svæði í hlíðum Eyrarfjalls og uppi á fjallinu í mikilli nálægð við þéttbýlið á Ísafirði.
Þar sem hönnun mannvirkja liggi ekki fyrir, m.a. bygginga á toppi Eyrarfjalls, s.s. veitingastaðar og hótels, sé ekki hægt að átta sig á ásýndarbreytingum sem gætu orðið með tilkomu þeirra. Bæði Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun telji að helstu umhverfisáhrifin verði að fyrirhuguð mannvirki muni breyta ásýnd Eyrarhlíðar og Eyrarfjalls séð víða að og þannig leiða til varanlegra breytinga á landslagi. Skipulagsstofnun taki undir með framangreindum stofnunum og telji að fjalla þurfi nánar um mismunandi valkosti bygginga, m.a. stærð þeirra og útlit og greina nánar og meta hugsanleg ásýndaráhrif af fyrrnefndnum byggingum, sem og öðrum fyrirhuguðum mannvirkjum.
Úrskurðarnefndin bendir á að óvissa um þessi atriði getur ekki leitt til þess að mat á umhverfisáhrifum fari ekki fram. „Var Skipulagsstofnun því rétt að láta framkvæmdaraðila bera halla af því að óvíst væri hvaða ásýndaráhrif yrðu af framkvæmd hans“ Telur nefndin að Skipulagsstofnun hafi tekið viðeigandi tillit ákvæða laga í rökstuðningi sínum fyrir því að framkvæmdin færi í umhverfismat.
Skipulagsstofnun vísaði einnig til þess að hætta væri á því að gestir með kláfnum myndi nota hann til þess að fara með skíði upp á Gleiðarhjallann og renna sér niður og af því gæti stafað hætta meðal annars vegna snjóflóða. Að fengnum svörum framkvæmdaaðila , sem taldi nánast útilokað að hægt væri að renna sér niður frá endastöð kláfsins, auk sem þegar í dag gengi fólk upp á Gleiðarhjallann og renndi sér niður, komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að Skipulagsstofnun hefði mátt rökstyðja frekar niðurstöðu sína að þessu leyti, en
„Það verður þó ekki séð að sá ágalli hafi haft áhrif á niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsskyldu hinna umþrættu framkvæmda, enda var áhersla stofnunarinnar fyrst og fremst á þá ásýndarbreytingu sem af framkvæmdinni yrði og
upplýsa þyrfti betur um í mati á umhverfisáhrifum hennar.“