Uppskrift vikunnar – Öðruvísi skata

Í tilefni Þorláksmessu fannst mér við hæfi að vera með uppskrift sem er jú skata en fersk og allt önnur en við könnumst við sem Þorláksmesssusið.

Ég efast um að nokkur sé til í að breyta Þorláksmessuskötunni en kannski til í að prufa þessa síðar meir.

Fersk skata

Innihald

500 g fersk og ósöltuð skata

Ólífuolía til steikingar

100 g smjör

Sletta af sítrónusafa eða hvítvíni

Smá hvítlauksolía ef vill

2 msk kapers-ber

2 msk laukur, gróft skorinn

Salt og pipar eftir smekk

Aðferð

Skötustykkin roðflett og pensluð með ólífuolíu eða hvítlauksolíu, og krydduð með salti og pipar. Ólífuolía og klípa af smjöri er brúnað á vel heitri pönnu, og skötustykkin svo steikt upp úr því. Ef stykkin eru þykk má loka pönnunni og taka hana af hellunni þegar þau eru steikt og láta þau bíða aðeins svo þau eldist í gegn.

Þegar skatan er að verða tilbúin er gott að bæta kapers-berjunum á pönnuna ásamt lauknum. Þegar skatan hefur verið tekin af er restinni af smjörinu bætt við ásamt sítrónusafa eða hvítvínslögg. Þessu er blandað saman á heitri pönnu og smjörið brúnað. Brúnað smjörið með lauknum og berjunum er svo borið fram með steiktu skötunni. Með þessu er svo gott að bera fram soðnar kartöflur, eða annað meðlæti eftir smekk eins og með hverjum öðrum fiskrétti, t.d. gott grænmeti.

Verði ykkur að góðu og gleðlileg jól.

Halla Lúthersdóttir.

DEILA