Opnar sjókvíar eru úrelt tækni

Fyrrum sjávarútvegsráðherra Íslands, en nú talsmaður norsku sjókvíaeldisrisanna sem eiga laxeldið í fjörðunum okkar að miklum meirihluta, fór ansi frjálslega með sannleikann í grein sem birtist í Morgunblaðinu í nóvember en var svo endurbirt hér á BB í þessari viku. Það er því við hæfi að endurbirta hér áður birt svar til Einars, enda mikilvægt að leiðrétta ýmislegt sem þar kemur fram.

Baráttan gegn loftslagbreytingum af mannavöldum og hungri í heiminum eru bæði svo sannarlega meðal allra mikilvægustu málum samtímans. Sjókvíaeldi á laxi leikur þó ekki jákvætt hlutverk í þeim efnum eins og Einar K. Guðfinnsson hélt fram í sinni grein. Þvert á móti er sjókvíaeldi birtingarmynd af framleiðsluaðferðum sem mannkyn þarf að breyta svo ekki fari illa. 

Ódýr næringarefni notuð í lúxusframleiðslu

Til að framleiða eina máltíð af eldislaxi þarf prótein og næringarefni sem myndu annars duga í þrjár til fjórar máltíðir fyrir fólk. Í laxeldi er sem sagt verið að búa til lúxusmatvöru úr fæðuflokkum sem væri annars hægt að nýta til að seðja hungraðan heim. Undanfarin misseri hafa Reuters, The Guardian og fleiri fréttamiðlar til dæmis birt fréttaskýringar um að eftirspurn fiskeldisfyrirtækja eftir fiskimjöli er svo mikil að stór hluti afla við Vestur-Afríku fer í bræðslu og er svo seldur úr landi í stað þess að næra heimafólk.

Laxeldi er bara um 3 prósent af því fiskeldi sem stundað er í heiminum. Langstærsti hluti þess er eldi á fisktegundum sem lifa á fæðu sem ekki myndi nýtast til manneldis, ólíkt því sem á við um afurðirnar sem notaðar eru til að framleiða fóður fyrir eldislaxinn. Auk fiskolíu og mjöls er notað mikið af sojabaunum í fóður fyrir eldislaxinn. Þessar baunir eru að stórum hluta ræktaðar á ökrum sem hafa verið ruddir í Amazon frumskóginum. 

Hugsið ykkur þetta ferli: Sojabaunir ræktaðar í Suður-Ameríku eru fluttar til Norður-Evrópu þar sem þeim er sturtað í sjó í þau tvö ár sem laxinn er alinn í netapokunum. Að þeim tíma loknum er laxinum slátrað og flogið með hann á markað í Bandaríkjunum eða Evrópu. Það er ekkert umhverfisvænt við þetta.

Fimm sinnum stærra kolefnisfótspor

Einar K. lét í grein sinni mikið með útreikninga á kolefnisfótspori sjókvíaeldisins, en nefndi þó ekki að þær tölur hans komu úr skýrslu sem Landssamband fiskeldisstöðva keypti af íslensku fyrirtæki sem hafði aldrei áður rannsakað þessa hlið laxeldis. Í skýrslunni var því haldið fram að kolefnisfótspor sjókvíaeldislax sé álíka og af veiðum á villtum þorski. Þetta er alrangt, eins og hefur reyndar verið bent á áður og Einari á að vera kunnugt um. 

Samkvæmt rannsókn hins virta norska rannsóknarfyrirtæki SINTEF, sem hefur unnið sömu útreikninga um árabil, er kolefnisfótspor sjókvíaeldislaxins fimm sinnum hærra en af veiðum á þorski, og rúmlega tvöfalt hærra en kom fram í þeim tölum sem fyrrum sjávarútvegsráðherra Íslands flaggaði í hlutverki sínu fyrir norsku eigendur sjókvíaeldisfyrirtækjanna.

Í tölum SINTEF kemur fram að kolefnisfótspor sjókvíaeldislax hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Helstu ástæður eru þessar:

– Vaxandi fiskidauði í sjókvíaeldinu og viðvarandi lúsafár hefur haft í för með sér meiri umferð brunnbáta og annarrar þjónustuskipa í kringum sjókvíarnar.

– Þessi aukni fiskidauði hefur síðan leitt af sér mun verri fóðurnýtingu. Með öðrum orðum, reikna þarf fóðrun þess fisks sem drepst með í þeim hluta framleiðslunnar sem fer til neytenda.

– Miklu hærra hlutfall fóðursins kemur úr plönturíkinu en áður. Þetta eru fyrst og fremst sojabaunir sem eru ræktaðar á gríðarlegu landflæmi fjarri þeim stöðum þar sem laxinn er alinn. Þessi mikla landnotkun og langar flutningsleiðir fóðurs vega mjög þungt þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda.

Staðan er því nú sú að norskur sjókvíaeldislax er með 25 prósent hærra kolefnisfótspor en kjúklingur sem ræktaður er í Evrópu. Og ekki er Ísland nær mörkuðum en Noregur og hið skelfilega háa hlutfall eldialaxa sem drepst í kvíunum er síst lægra hér en þar.

Sjókvíaeldi er úrelt tækni

Hér eru ótalin skaðleg áhrif sjókvíaeldis á umhverfið vegna mengunar og lífríkið vegna sníkjudýra og erfðablöndunar. Neytendur nútímans gera í vaxandi mæli kröfur um að matvælaframleiðsla sé mannúðleg og skaði ekki náttúruna. Sjókvíaeldi uppfyllir hvorugt þeirra skilyrða. Það lætur umhverfið og villta laxinn niðurgreiða sína skaðlegu tækni. 

Þetta getur ekki gengið svona áfram. Neytendur munu hafna þessari vöru. Af þeim sökum sagði Atle Eide, fyrrum stjórnarformaður SalMar, móðurfélags Arnarlax, nýlega að dagar opins sjókvíaeldis væru taldir. Spáði hann því að opnar kvíar yrður farnar úr sjó 2030. 

Hér á landi er raunveruleg hætta á að við sitjum uppi með úrelta og skaðlega tækni miklu lengur ef menn eins og Einar K. Guðfinnsson fá að ráða för. Það má ekki gerast.

Ingólfur Ásgeirsson er einn af stofnendum Íslenska náttúruverndarsjóðsins, The Icelandic Wildlife Fund

DEILA