Officio ehf : 30 m.kr tekjur í fyrra

Fyrirtæki Braga Rúnars Axelssonar forstöðumanns útibús Innheimtustofnunar sveitarfélaga á Ísafirði Officio ehf, sem mun hafa fengið innheimtuviðskipti fyrir stofnunina, var stofnað snemma árs 2019 og er til heimilis á Ísafirði. Tekjur þess voru 10 m.kr. það ár en jukust upp í 30 m.kr. á árinu 2020. Eignir félagsins eru fasteign sem bókfærð er á 30 m.kr og skuldir nánast jafnháar.

Samkvæmt stofntilkynningu er tilgangur félagsins lögfræðileg ráðgjöf og almenn ráðgjafaþjónusta. Bragi Rúnar er stjórnarformaður og prókúruhafi. Meðstjórnandi var í upphafi Bryndís Ósk Jónsdóttir, Ísafirði en hún sagði sig úr stjórninni síðar á árinu 2019.

Samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ er sveitarfélagið með samning við Officio ehf um innleiðingu persónuverndarlöggjafar. „Fyrirtækið var með hagstæðastæðasta verð í verkefnið sem er tímabundið til tveggja ára. Samkvæmt samningi lýkur innleiðingunni á næsta ári. Ákvörðun um þetta var tekin í bæjarráði“ segir í svari Birgis Gunnarssonar bæjarstjóra.

Viðbót kl 13:43.

Bæjarstjóri var inntur eftir nánari upplýsingum um tilboðin sem fengust og hver samningsfjárhæðin væri.

Svör hans voru eftirfarandi:

„Það komu tilboð frá þremur aðilum; Officio, Logos og Landslögum í innleiðingu á persónuverndarlöggjöfinni ásamt því að taka að sér verkefni persónuverndarfulltrúa að lokinni innleiðingu á löggjöfinni. Tilboðin voru því annars vegar í innleiðinguna og hins vegar í tímagjald og tímafjölda við að sinna verkefnum persónuverndarfulltrúa. Officio átti lægsta tilboð í innleiðinguna rétt um 2,3 millj. og miðað var við að innleiðingu yrði lokið fyrir árslok 2020. Hin tilboðin voru á bilinu 3-4 milljónir. Greiddir eru 6 tímar á mánuði fyrir að sinna störfum persónuverndarfulltrúa Ísafjarðarbæjar og gildir sá samningur út árið 2023. Persónuverndarfulltrúi af hálfu Officio er Ingunn Magnúsdóttir.“

DEILA