Kampi: hefur greitt upp nauðasamninginn

Kampi ehf. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Rækjuverksmiðjan Kampi á Ísafirði hefur lokið að greiða umsamdar skuldir samkvæmt nauðasamningi sem samþykktur var í haust.

Í janúar síðastliðnum fékk Kampi greiðslustöðvun og í framhaldinu náðist samkomulag við kröfuhafa. Greiddi Kampi 30% af skuldunum auk fastagreiðslu allt að 200.000 kr. Þannig að allir sem áttu kröfur undir 200 þúsund kr. fengu hana að fullu greidda.

Albert Haraldsson,rekstrarstjóri fagnaði þessum áfanga og sagði að Kampi væri að komast út úr fjárhagslegum þrengingum. Auk þess að ljúka samkomulaginu við kröfuhafa á farsælan hátt hefði á árinu tekist að greiða verulega niður aðrar skuldir og fyrirsjáanlegt að því yrði lokið innan skamms.

Albert vildi færa kröfuhöfum þakkir fyrir skilning á stöðu fyrirtækisins sem hefði gert stjórnendum kleift að koma því á fjárhagslegan traustan grunn.

Rekstur Kampa hefur gengið vel á árinu og hefur skilað hagnaði. Fáir dagar hafa fallið úr rekstri og þá vegna hráefnaskorts. Vonaðist Albert til þess að rækjuveiðar yrðu leyfðar í Djúpinu á nýju ári.

Ákveðið hefur verið í framhaldinu að auka hlutafé og stækka hluthafahópinn. Þessi aðgerð mun styrkja fjárhagslegan grunn fyrirtækisins.

DEILA