Jólahefðir – Suðurland

Skálholt.

Jólahefðir eru margar og mismunandi eftir landshlutum eins og fram hefur komið. Oft eru sömu hefðir um allt land en í langflestum landshlutum eru sérstakar hefðir sem í það minnsta hafa hafist þar.

Á Suðurlandi er hefð fyrir því að hafa aukadisk á hátíðarborðinu og er talið að þessa hefð megi rekja til Skálholts vegna fjölda förufólks sem þangað kom um hátíðarnar til að óska eftir matarbita. Enn þann dag í dag er á fjölda heimila, sér í lagi í Biskupstungum haldið í þessa hefð, aukadiskur við matarborðið ef til þess kemur að þurfalingur banki uppá. Hin íslenska gestrisni uppá sitt besta.

Þessi hefð er reyndar þekkt í Noregi líka en þar er sagan á bakvið að auði matardiskurinn sé fyrir fjölskyldumeðlim sem fallinn er frá.

Annar siður sem tengdur er við Suðurland en ég veit reyndar til að þekkist annars staðar á landinu er að hver skal halda uppá sína afganga af hátíðarmatnum. Þennan sið má finna heimildir um allt frá sextándu öld, þar má draga líkur að því að þetta var eini tími ársins þar sem ekki var misskipt milli húsbænda og hjúa. Af samtölum við hjón á tíræðisaldri sem ólust upp undir Eyjafjöllum segjast þau hafa haldið í þennan sið á sínu heimili en í það minnsta þeirra afkomendur hafi lagt hann af enda varla ekki mikið um misskiptingu matar á íslenskum heimilum í dag.

Að sjálfsögðu koma matarhefðir alltaf jólahaldi mikið við og þessi hefð ætti að falla í kramið hjá Vestfirðingum þar sem við virðumst vera afskaplega hrifin af kúmeni. Í Fljótshlíð er ávallt sultað eins og á flestum stöðum landsins en þar er hluti rabbabarasultunnar sérmerktur jólum en í hana er bætt kúmeni. Svokölluð hátíðarsulta.

Á mörgum stöðum á landinu hafa borist hefðir erlendis frá og má yfirleitt tengja þá verkafólki og þá aðallega sjómönnum sem komu á vertíðir á þessa staði. Einn þessara staða eru Vestmannaeyjar en þar var jafnan mikill fjöldi Færeyinga við störf. Tvær af þessum hefðum héldust lengi í Vestmannaeyjum, það er að halda jólaball klukkan sex á annan í jólum en þá telja Færeyingar hinum kristnu jólum lokið og við tekur jólahald sem lítið hefur með kristni að gera og kallast tíminn fram að þrettándanum í Færeyjum hin gömlu jól.

Hin hefðin er reyndar íslensk líka en aðeins öðruvísi útfærð en það er kleinubakstur fyrir jólin en enn þann dag í dag eru Vestmanneyingar sem halda sig við færeysku kleinurnar sem eru líkar íslensku, aðalmunurinn er að í þeim færeysku er mun meira af kardimommudropum sem gerir þær ólíkar fyrir bragðskynið en þær íslensku.

Halla Lúthersdóttir

Heimildir:

Viðtöl við heimamenn

Saga daganna eftir Árna Björnsson

Vestmannaeyjar.

DEILA