Ísafjörður: hafnað að fjarlægja ólátabelg

Ærslabelgurinn á Eyrartúni er skammt frá aparólunni.

Skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar ákvað 28. maí 2021 að verða ekki við kröfu um að ærslabelgur á Eyrartúni verði færður. Tildrögin voru að þau að ærslabelgur var staðsettur við Eyrartún. Óánægja var með það og farið fram á að hann yrði færður annað. Skipulagsnefndin hafnaði því á þeim grundvelli að staðsetning ærslabelgsins væri í samræmi við deiliskipulag. 

Kærandi skaut málinu til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi og og til vara að belgurinn yrði fluttur á annan stað með að lágmarki sömu fjarlægðarmörkum og ákvörðuð hafi verið gagnvart íbúum Túngötu 12 og Eyrargötu 3.

Kærandi bendir á að með ákvörðun sinni um að staðsetja svokallaðan ærslabelg á Eyrartúni og færa hann nær Túngötu 5 hafi verið brotið gegn andmælarétti íbúa í nærumhverfi framkvæmdarinnar enda hafi ekki farið fram grenndarkynning. Í kjölfar athuga­semda íbúa við Túngötu 12 og Eyrargötu 3 hafi belgurinn verið færður í 48,35 m fjarlægð frá þeim húsum en hin nýja staðsetning sé hins vegar einungis í 39,39 m fjarlægð frá húsi kæranda og því hafi ekki verið gætt jafnræðis við framkvæmdina. Ekki hafi verið hugað að umferðaröryggi eða aðgengi og séu börn ítrekað að skjótast milli kyrrstæðra bifreiða á leið sinni til og frá ærslabelgnum og legið hafi við stórslysum. Ekki hafi verið fengið leyfi hjá Minjastofnun fyrir framkvæmdinni á Eyrartúni, eins og beri að gera samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012, en bæði sé Eyrartún friðhelgað svæði og njóti hverfisverndar.

Í samræmi við lögbundið hutverk nefndarinnar tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar segir í úrskurðarorðinu. Þá brestur úrskurðarnefndina heimild til þess að leggja fyrir stjórnvöld að taka tilteknar ákvarðanir. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að flytja umdeildan ærslabelg á annan stað með að lágmarki sömu fjarlægðarmörkum og ákvörðuð hafi verið gagnvart íbúum Túngötu 12 og Eyrargötu 3.

Nefndin bendir á aðíÍ gildandi deiliskipulagi Eyrarinnar á Ísafirði er Eyrartún skilgreint sem leiksvæði og almenningsgarður og gert er ráð fyrir sparkvelli næst gæsluvelli, þar sem ærslabelgurinn er nú staðsettur. „Verður að telja að staðsetning ærslabelgsins sé í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins.“

Þá er ærslabelgur ekki er háður byggingarleyfi og varðandi staðsetningu ærslabelgsins segir í úrskurðinum að staðsetning hins umdeilda ærslabelgs brjóti ekki gegn jafnræðisreglu, en hann er staðsettur u.þ.b. 10 m nær húsi kæranda en húsum þeim er hann hefur bent á í því sambandi.

 Niðurstaðan er að kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar er hafnað.

DEILA