Ísafjörður: deilt um verönd og dyr á Engjaveginum

Engjavegur 7 Ísafirði.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hafnaði fyrir jól kröfu eiganda að Engjavegi 9 sem vilti að fellt yrði úr gildi samþykkti byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 11. maí 2021, sem veitti leyfi til að reisa verönd og setja dyr á suðausturhluta hússins að Engjavegi 7. 

Tildrög málsins eru þau að vorið 2020 ákváðu eigendur húsanna að Engjavegi 7 og 9 að smíða sólpalla við hús sín. Þegar framkvæmdir hófust við sólpall á Engjavegi 7 töldu eigendur Engjavegar 9 að líklega þyrfti byggingarleyfi fyrir þeim palli. Höfðu þeir því samband við byggingarfulltrúa 20. júlí 2020 og óskuðu eftir að hann skoðaði framkvæmdirnar. Var það mat byggingarfulltrúans eftir skoðun að framkvæmdin væri byggingarleyfisskyld. Með umsókn, dags. 31. júlí 2020, sóttu eigendur Engjavegar 7 um leyfi fyrir nýjum dyrum og verönd við suðvesturenda hússins. Hinn 18. september s.á. var erindið grenndarkynnt og bárust athugasemdir frá eigendum Engjavegar 9. Á fundi skiplags- og mannvirkjanefndar 14. apríl 2021 var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókun gerð: „Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur tillit til athugasemda eigenda Engjavegar 9. Breytingar skulu gerðar á sólpalli svo þær samræmist byggingarreglugerð.“ Eigendur Engjavegar 7 skiluðu inn nýjum uppdrætti að sólpallinum 16. apríl s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. maí s.á. var umsókn þeirra um byggingarleyfi síðan samþykkt. Til grundvallar ákvörðun byggingarfulltrúa var að eigendur Engjavegar 7 höfðu áritað samþykki sitt fyrir breytingum á umræddum sólpalli svo hann samræmdist byggingarreglugerð. 

Kærendur byggðu á því að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn byggingarreglugerð og að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem gerðar hafi verið við grenndarkynningu vegna málsins. Gerðar hafi verið athugasemdir við að skjólveggur við pallinn væri of hár miðað við að standa í 80-90 cm fjarlægð frá lóðamörkum. Hæð veggjarins væri þar 180 cm og enn meiri meðfram götunni. Skjólveggurinn myndi auka á snjósöfnun á bílastæði kærenda og minnka útsýni á götuna þegar bakkað væri út úr bílastæðinu.

Sveitarfélagið benti á að ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita byggingarleyfi fyrir umræddum sólpalli hafi grundvallast á heildstæðu mat á atvikum og aðstæðum. Horft hafi verið til þeirra athugasemda sem fram hafi komið við grenndarkynningu og til undirritaðrar yfirlýsingar eigenda Engjavegar 7 þess efnis að sólpallurinn yrði færður í það horf að hann uppfyllti byggingarreglugerð. Skjólveggir sem snúi að lóðamörkum gagnvart Engjavegi 9 hefðu verið lækkaðir niður í 120 cm en þeir stæðu í 120 cm fjarlægð frá lóðamörkunum.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar segir að að skjólveggir og girðingar sem séu allt að 1,8 m að hæð og ekki nær lóðamörkum en 1,8 m séu undanþegnar byggingarleyfi enda flokkaðar sem minniháttar framkvæmdir. Enn fremur falli girðingar eða skjólveggir sem séu nær lóðar­mörkum en 1,8 m og séu ekki hærri en sem nemi fjarlægðinni frá lóðamörkum undir þau ákvæði.

Þá segir að telji kærendur að sólpallurinn sé ekki í samræmi við byggingarleyfi geta þeir leitað til byggingarfulltrúa, sbr. framangreint ákvæði, og krafist íhlutunar hans svo mannvirkið verði í samræmi við veitt byggingar­leyfi. Afgreiðsla slíks erindis er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaðan er að kröfukærenda um ógildinu var hafað.

DEILA