Ísafjarðarbær styrkir útilistaverk á Þingeyri

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að veita styrk til Tanks menningarfélags vegna gatnagerðargjalda og byggingarleyfisgjalda að fjárhæð kr. 2.636.786.

Tankurinn er útilistaverk á Þingeyri sem unnið var að í sumar. Bygging tanksins er nánast lokið og er að henni verið lokið að fullu vorið 2022. Í erindi Tanksins, félags sem stofnað var til vegna þessa verks segir um verkið:

„Framkvæmdir við Tankinn ganga vonum framar. Í sumar var Tankurinn fluttur frá Bakka, þar sem hönnun og fyrsti hluti framkvæmdarinnar fór fram. Það var mikið gleðiefni að sjá Tankinn rísa á ný á Þingeyri og nú í nýjum og breyttum búningi og með nýtt og spennandi hlutverk. Þá er óhætt að segja að viðtökurnar hafa verið mjög jákvæðar, bæði hjá heimafólki og eins þeim sem sóttu Þingeyri heim í ár.“

Umrædd fjárhæð var greidd í sumar og er nú óskað eftir jafnháum styrki til framkvæmdarinnar frá Ísafjarðarbæ.

Tankur menningarfélag og Ísafjarðarbær gerðu með sér samning um uppbyggingu útilistaverksins Tankur í maí 2020. Um er að ræða samstarfsverkefni þar sem Tankur menningarfélag sér um hönnun, smíði og fjármögnun verksins, en afhendir það svo sveitarfélaginu til eignar og umsjónar þegar fimm ár eru liðin frá verklokum.

Skyldur sveitarfélagsins samkvæmt samningnum er að leggja til lóðina að Sjávargötu 16 á Þingeyri og greiða alls kr. 8.000.000 sem styrk inn í verkefnið.

Verkefnið er þannig kynnt:

„Tilgangur verkefnisins að tengja með áhrifaríkum hætti olíutank, sem tákn um atvinnusögu fiskiþorpsins, við náttúruupplifun almennings á Þingeyri. Með japanskri hönnun úr endurnýttum olíutanki og grjóthnullungum úr Dýrafirði myndar verkið brú milli ólíkra menningarheima frá fortíð yfir í framtíð. Listaverkið verður í raun fólkvangur opinn allt árið.“

DEILA