Ísafjarðarbær: Daníel hættir í bæjarstjórn

Daníel Jakobsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.

Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ tilkynnti á síðasta bæjarstjórnarfundi að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Kosið verður til sveitarstjórna um land allt 14. maí 2022.

Aðspurður sagði Daníel að hann teldi rétt að hætta á meðan að þetta væri enn gaman. „Ég hef nú verið í bæjarstjórn í 8 ár og þar áður bæjarstjóri í 4 ár og því samtals í 12 ár. Þetta hefur verið skemmtilegur tími og margt gerst í sveitarfélaginu okkar. Eftir áratuga fólksfækkun blasa nú ný og skemmtilegri verkefni við bæjarfulltrúum s.s. að skipuleggja lóðir undir nýbyggingar og atvinnuhúsnæði sem og önnur verkefni sem fylgja stækkandi sveitarfélögum. Nú er kominn tími til að aðrir taki keflið“.

Daníel sagðist að lokum vera þakklátur fyrir stuðninginn til starfa á þessum vettvangi.

DEILA