Friðun Dranga: þess krafist að friðunin hafi engin áhrif út fyrir landamörk Dranga

Kort af svæðinu.

Eigendur jarðarinnar Ófeigsfjörður í Árneshreppi hafa sent bréf til til Umhverfisráðherra, þingforseta Alþingis og þingmanna Norðvesturkjördæmis þar sem þeirri kröfu er beint til Umhverfisráðherra, Umhverfisstofnunar og forsvarsmenn Dranga að þeir staðfesti að friðlýsing Dranga hafi engin áhrif út fyrir landamörk Dranga eða að opinber yfirlýsing komi frá Alþingi um að áhrifasvæði friðlýsingar nái aðeins til óumdeildra landamerkja Dranga.

Frekleg aðför að einkaeignarrétti

Í bréfinu segir:

„Eins og friðlýsingin ber með sér nær áhrifasvæði hennar yfir nær alla Skjaldabjarnarvík, Drangavík, Engjanes og talsvert inn á okkar jörð Ófeigsfjörð landnr. 141707

Þetta er frekleg aðför að einkaeignarrétti þeirra sem eiga jarðir sem þessi friðun hefur áhrif á.

Við höfum ekki fengið formlegt boð um að láta í ljós álit okkar á gjörningum eða hafa nokkuð um þetta að segja. En að okkar frumkvæði gerði lögfræðingur athugasemd við téða friðlýsingu, en það virðist að engu hafa verið haft.

Þær fréttir sem við höfum af þessu hermt eru af skotspónum. Þessi gjörð lýsir fádæma valdníðslu svo ekki sé dýpra í árinni tekið, einnig krefjumst við þess, að þetta verði fært í það horf að allir geti við unað.

Við gerum ekki athugasemdir við að Drangajörðin sé friðlýst, en þá einungis hún ein og sér.“

Undir bréfið ritar fyrir hönd landeigenda í Ófeigsfirði Pétur Guðmundsson.

Meta þarf hvert tilvik

Bæjarins besta innti Evu B. Sólan Hannesdóttur, lögfræðing Umhverfisstofnunar og formann starfshóps um friðun Dranga eftir því hvernig bæri að skilja ákvæði laganna um 5 km áhrifasvæði að jafnaði utan við hið friðlýsta svæði og hvað væri þá ekki heimilt að gera þar.

Í fyrra var, að sögn Evu, lögunum breytt þannig að hægt væri að friðlýsa svæði sem uppfyllir öll skilyrði sem óbyggt víðerni þótt mannvirki séu til staðar í innan við 5 km. fjarlægð frá mörkum svæðisins. Það var gert með því að bæta við orðunum „að jafnaði“ inn í fyrirliggjandi lagatexta.

Breytingin hefur þau áhrif að meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort mannvirki sem er utan fyrirhugaðs friðlýsts svæðis en innan fjarlægðarmarka hafi áhrif á flokkun þess í viðkomandi friðlýsingarflokk segir Eva í svarinu og vísar til skýringa sem fylgdu með lagabreytingunni.

„Samkvæmt framangreindu veitir orðalagið „að jafnaði“ svigrúm til þess að það sé metið í hverju tilfelli fyrir sig hvort og hvaða áhrif mannvirki og/eða tæknileg ummerki á öðru svæði hafi eða muni hafa á verndargildi svæðis sem fellur undir óbyggð víðerni.“ segir í svari lögfræðings Umhverfisstofnunar.

Ekki kemur fram í svarinu hvort við undirbúning friðlýsingarinnar hafi verið athugað hvort fyrirhugaðar framkvæmdir við Hvalárvirkjun myndu að einhverju leyti vera innan innan fjarlægðarmarka friðlýsta svæðisins og hvort yrði amast við þeim. Óskað var eftir korti þar sem áhrifasvæði friðlýsingarinnar væri merkt inn en það barst ekki.

DEILA