Flugfélagið Ernir hefur áætlunarflug til Eyja

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur samið við Flugfélagið Erni um lágmarksflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja til 1. júní á næsta ári. Farnar verða að tvær ferðir í viku, fram og til baka, á mánudögum og föstudögum. Fyrsta ferðin verður þó á fimmtudaginn kemur, á Þorláksmessu.

Áætlunarflug á markaðslegum forsendum milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja lagðist af í haust vegna minni eftirspurnar sem rekja mátti til Covid-19 faraldursins. Gerð var verðkönnun hjá þremur flugrekendum en Flugfélagið Ernir átti lægsta boðið. Íbúar Vestmannaeyja munu geta nýtt sér Loftbrú sem veitir 40% afslátt á flugfargjöldum.

Hægt verður að framlengja samninginn við Flugfélagið Erni um tvær vikur í senn ef þörf krefur. Sömuleiðis má fella samninginn niður án fyrirvara hefjist áætlunarflug á markaðslegum forsendum að nýju innan gildistíma hans. Allar tekjur Flugfélagsins Ernis af miðasölu og fraktflutningum á flugleiðinni munu lækka greiðslur vegna samningsins segir í frétt Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um málið.

Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ernis sagði í samtali við Bæjarins besta að það væri ánægjulegt að hefa á nýjan leik áætlunarflug til Vestmannaeyja. Félagið var með áætlunarflug um 10 ára skeið við góðan orðstír. „Eyjamenn sögðust aldrei hafa haft betri þjónustu“ sagði Hörður.

Flugfélagið Ernir sinnir einnig lágmarksflugi til Hornarfjarðar samkvæmt samningi við ríkið, auk þess að vera með áætlunarflug á viðskiptalegum forsendum til Húsavíkur, alla daga vikunnar, 10-12 ferðir á viku.

Hörður sagði að nokkuð væri að gera í leiguflugi og sjúkraflugi til útlanda, síðast á sunnudaginn var sjúkraflug frá Ísafirði til Svíþjóðar.

DEILA