Flateyri: Ísafjarðarbær afturkallar lóðarsamning fyrir Hafnarbakka 5

Teikning af lóðinni Hafnarbakki 5 á Flateyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ákvað á fundi sínum í gær að afturkalla lóðasamning fyrir Hafnarbakka 5 á Flateyri sem bæjarstjórnin samþykkti 5. nóvember 2020. Úthlutunin var til fyrirtækisins Orkuver ehf, sem aftur er í eigu AB Fasteigna ehf. Það mun hafa síðar selt réttinn til ÍS47 ehf sem hefur leyfi til fiskeldis í Önundarfirði. Á lóðinni eru húseignir í eigu Arctic Fish sem urðu án lóðarréttinda við úthlutunina.

Í bókun bæjarráðs segir:

„Ástæða afturköllunar er sú að orðalag lóðarleigusamningsins er ekki nægilega skýrt um þau lóðarréttindi sem til stóð að úthluta, þar sem samningurinn ber með sér að leigutaka sé leigð öll lóðin að Hafnarbakka 5 og þar með undan fasteignum á lóðinni í eigu annars aðila. Lóðarleigusamningurinn hafi því orðið annars efnis en til stóð. Er bæjarstjóra falið að hlutast til um að gripið verði til annarra viðeigandi ráðstafana til að leiðrétta þá röngu réttarstöðu sem lóðarleigusamningurinn kann að teljast bera með sér.

Ætlun Arctic Fish mun hafa verið sú að reisa laxasláturhús á þessari lóð en ÍS47 ehf lagðist gegn því og að óbreyttum lóðsamningi er málið strand.

 

DEILA